„Getum ekki þolað að það verði niðurstaðan“

Jóhann Páll segir að niðurstaða héraðsdóms hefði mögulega verið öðruvísi …
Jóhann Páll segir að niðurstaða héraðsdóms hefði mögulega verið öðruvísi hefði verið búið að innleiða Bókun 35. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/Tölvuteikning/Landsvirkjun

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að möguleikinn á nokkurra ára seinkun á gangsetningu Hvammsvirkjunar, vegna dóms héraðsdóms, væri óþolanleg niðurstaða. Hann segir að innleiðing bókun 35 í íslenskan rétt hefði mögulega komið í veg fyrir stöðuna sem uppi er komin.

Þetta kemur fram í samtali hans við mbl.is.

„Það skiptir mjög miklu máli að það sé brugðist skynsamlega og af ábyrgð við þessari niðurstöðu héraðsdóms vegna þess að það er mjög mikið í húfi fyrir raforkuöryggi í landinu og loftslagsmarkmið Íslands,“ segir Jóhann.

Endurskoða þarf leyfisveitingaferlið

Héraðsdómur Reykja­vík­ur felldi í dag úr gildi virkj­un­ar­leyfi Hvamms­virkj­un­ar þar sem Umhverfisstofnun var ekki heimilt, að mati dómsins, að veita heimild fyrir breytingu á vatnshloti – hvorki fyrir Hvammsvirkjun né nokkra aðra vatnsaflsvirkjun.

Þar sem heimildin sem Umhverfisstofnun veitti var ekki lögleg var virkjunarleyfið sem Orkustofnun veitti Landsvirkjun fellt úr gildi.

„Niðurstaða héraðsdóms felur í sér túlkun á lagaumhverfinu eins og það er núna þegar kemur að orkunýtingu. Ný ríkisstjórn hefur verið mjög skýr með að það þarf að endurskoða leyfisveitingaferlið í heild sinni og þar eru lög um stjórn vatnamála ekki undanskilin,“ segir Jóhann.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að sam­kvæmt dómn­um þá gerði lög­gjaf­inn Um­hverf­is­stofn­un ókleift að veita heim­ild til breyt­ing­ar á vatnshloti fyr­ir bygg­ingu vatns­afls­virkj­ana við inn­leiðingu vatna­til­skip­un­ar Evr­ópu­sam­bands­ins.

Þar af leiðandi væri ekki hægt að veit virkjunarleyfi fyrir neinar nýjar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi.

Kannski öðruvísi niðurstaða hefði bókun 35 verið innleidd

Tilskipunin var leidd í lög árið 2022.

Héraðsdómur segir að Evróputilskipunin sjálf heimili breytingar á vatnshloti vegna vatnsaflsvirkjana en eftir að hún fór í gegnum þinglega meðferð Alþingis er ekki skýrt að neinum sé heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti vegna vatnsaflsvirkjana.

„Það er ekki víst að sama niðurstaða hefði orðið í þessu máli ef búið væri að innleiða bókun 35 á réttan hátt í íslenskan rétt. Það er eitt af því sem blasir við þegar dómurinn er lesinn,“ segir Jóhann.

Ótímabært að segja hvernig brugðist verður við

Dómurinn er rúmlega hundrað blaðsíðna langur og lögmenn í ráðuneytinu eru enn að rýna hann. Jóhann Páll segir ótímabært að segja hvernig ríkisstjórnin muni nákvæmlega bregðast við á þessum tímapunkti en segir að menn muni fara yfir málið af ábyrgð og yfirvegun.

Forstjóri Landsvirkjunar sagði við mbl.is að gangsetning Hvammsvirkjunar gæti seinkað um nokkur ár vegna dómsins.

Er þetta ekki áhyggjuefni?

„Það er áhyggjuefni og við getum ekki þolað að það verði niðurstaðan. Þess vegna þarf að bregðast við þessum dómi með skynsamlegum hætti,“ segir Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert