Köstuðu flugeldum í matvöruverslun

Börnin köstuðu flugeldunum í matvöruverslun.
Börnin köstuðu flugeldunum í matvöruverslun. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan var kölluð til í Kópavogi í dag vegna barna sem voru að kasta flugeldum í matvöruverslun. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna hennar frá klukkan 5 í morgun og til klukkan 17 í dag. Á tímabilinu voru 71 mál bókuð í kerfum lögreglu ásamt því að þrír aðilar voru vistaðir í fangageymslu. 

Tilkynnt var um þrjú vinnuslys á tímabilinu, eitt í Múlunum, eitt í Árbænum og annað í Kópavogi. 

Slagsmál og akstur undir áhrifum áfengis

Í miðbæ Reykjavíkur var tilkynnt um mann sofandi vímuefnasvefni í verslun. Lögreglan vakti manninn og hélt hann þá áfram sína leið. Þá var einnig tilkynnt um líkamsárás í miðbænum í dag og er málið í rannsókn lögreglunnar. 

Þá barst lögreglunni tilkynning um umferðaróhapp í Hafnafirði þar sem annar ökumannanna reyndist vera sviptur ökuréttindum. Sá á yfir höfði sér sekt. 

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, handtóku ökumann bifreiðar vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Maðurinn reyndist einnig vera sviptur ökuréttindum. 

Í Hlíðahverfi var tilkynnt um slagsmál og var einn vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert