Rannsókn hafin á Súðavíkurflóðunum

Fjórtán létust í snjóflóðunum í Súðavík 16. janúar 1995. Ákvarðanir …
Fjórtán létust í snjóflóðunum í Súðavík 16. janúar 1995. Ákvarðanir og athafnir Almannavarna í aðdraganda þeirra hafa verið gagnrýndar. Morgunblaðið/RAX

„Við erum á upphafsstigum verkefnisins. Það þarf að byrja á að skoða málið og afla gagna, átta sig á því hvar þau gögn er að finna og svo að kynna sér þau. Svo vindur þessu fram eins og gögn og rannsóknarefni gefa tilefni til,“ segir Finnur Þór Vilhjálmsson, formaður rannsóknarnefndar um snjóflóðið í Súðavík.

Nefndin tók til starfa um áramótin en auk Finns skipa hana Dóra Hjálmarsdóttir rafmagnsverkfræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Finnur verður í fullu starfi við nefndarstörfin það ár sem ætlað er í verkefnið en Dóra og Þorsteinn í hálfu starfi. Þá bætist starfsmaður nefndarinnar í hópinn í mars að sögn Finns.

Á morgun verða 30 ár liðin frá því að snjóflóð féllu á Súðavík þar sem 14 einstaklingar létust. Samþykkt var á Alþingi í fyrravor að skipa rannsóknarnefnd til að varpa ljósi á málið. Það var gert eftir að aðstandendur þeirra sem létust fóru fram á opinbera rannsókn.

Í greinargerð með þingsályktunartillögu um málið segir að ekki hafi farið fram óhlutdræg rannsókn á umræddum atburðum og að það hafi skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem mikilvægt sé að eyða.

Finnur segir í samtali við Morgunblaðið að starf nefndarinnar felist annars vegar í gagnaöflun og hins vegar í skýrslutökum. Þörfin á skýrslutökum stýrist af því hvernig starfinu vindur fram en líklegt verði að teljast að þær muni snúa að ákvarðanatöku yfirvalda í tengslum við atburðina. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er verkefnið þríþætt; í fyrsta lagi að kanna hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert