Þrjú krapaflóð féllu í gærkvöldi

Krapaflóð sem féll nærri fjárhúsum í Fagradal árið 2023.
Krapaflóð sem féll nærri fjárhúsum í Fagradal árið 2023. mbl.is/Jónas Erlendsson

Að öllum líkindum féllu þrjú lítil krapaflóð í gærkvöldi á Vestfjörðum en voru engin þeirra nálægt byggð. Unnið er nú að hreinsun þeirra af vegum sem þau féllu á.

Þetta upplýsir Unnur Blær Bartsch, sérfræðingur á sviði snjóflóða á Veðurstofu Íslands.

Lítil flóð og ekki nálægt byggð

Hún segir flóðin hafa fallið í Kjálkafirði, Bröttubrekku og í Reykhólasveit og nefnir að Veðurstofa geti með öllu staðfest að um krapaflóð sé að ræða þegar starfsmaður á þeirra vegum geti skoðað þau í birtingu. Hins vegar beri lýsingar með sér að um krapaflóð sé að ræða.

Segir Unnur að Veðurstofunni hafi aðeins borist ábendingar um þrjú flóð eins og er en segir hún þau ekki hafa verið stór. Aðeins tvö þeirra hafi náð yfir veg vegna hraða og þá séu þau ekki nálægt byggð. 

„Við flokkum þetta eftir stærðum og teljum að stærsta hafi verið 1,5 af 5 mögulegum,“ segir Unnur en nefnir að þó eigi Veðurstofu eftir að berast myndir og mælingar af flóðunum.

Von á meiri úrkomu í dag

 „Þetta fór greinilega í þeim giljum sem voru orðin mettuð af regni og snjó og það er alltaf líklegt að það gæti farið í fleiri giljum. Það á líka að halda aðeins áfram að rigna í dag.

Það á samt að rigna minna en það gerði í gærkvöldi en það gæti verið að það rigni ofan í eitthvað sem var nú þegar búið að fá á sig vatn í gær og þá mettist það,“ segir Unnur er hún er spurð hvort mögulega sé von á fleiri flóðum.

Hún nefnir að lokum að starfsmenn Vegagerðarinnar vinni nú að hreinsun veganna sem flóðin féllu á og sé þegar búið að hreinsa eitt þeirra í burtu og gefur hún þau ráð að fólk sem sé nálægt svæðunum skuli fylgjast vel með vef Vegagerðarinnar til að sjá stöðuna á svæðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert