Vitum ekki hvers megnug hún er

Skjálftahrina hófst klukkan sex í gærmorgun í Bárðarbungu. Jarðvísindamenn telja …
Skjálftahrina hófst klukkan sex í gærmorgun í Bárðarbungu. Jarðvísindamenn telja hugsanlegt að kvika hafi orsakað hrinuna. mbl.is/Rax

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að hann og aðrir jarðvísindamenn hafi ekki unnið heimavinnuna sína nægilega vel hvað Bárðarbungu varðar og því sé erfitt að spá fyrir um hegðun eldstöðvarinnar.

Landris hefur mælst í Bárðarbungu í tæpan áratug, eða frá því askja eldstöðvarinnar hætti að síga að loknu eldgosinu árin 2014-2015.

Öflug skjálftahrina hófst klukkan sex í gærmorgun og varði í þrjár klukkustundir. Jarðvísindamenn segja ekki útilokað að kvikuinnskot hafi valdið því. Minnti atburðarásin á aðdraganda fyrri eldgosa í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Bárðarbungu og Veiðivötn.

Deilt um gossögu Bárðarbungu

Lítið er þó vitað um eldgos í sjálfri Bárðarbungu, sem er megineldstöð á fyrrnefndu eldstöðvarkerfi, en deilt er um hvort og hversu oft hún hefur gosið frá því að jökla leysti. 

Þorvaldur segir eldstöðina virka og að kvika sé hugsanlega að safnast saman undir Bárðarbungu.

Magnið sé þó ekki mikið, miðað við árið 2014, og hann á ekki von á stóru sprengigosi ef gos verður.

Höfum hvorki þekkingu né vitneskju

Eldstöðvakerfi Bárðarbungu er um 190 km að lengd. Er það eina kerfið á landinu sem á uppruna sinn í bæði Norður- og Austurgosbeltinu.

„En það segir í sjálfu sér ekkert um hvers konar eldgos við fáum þarna upp,“ bendir Þorvaldur á.

Hann segir skjálfta ekki óalgenga í Bárðarbungu en aftur á móti hafi verið óvanalegt hve öflug hrinan í gær var. 

„Bárðarbunga er ólíkindakind vegna þess að við vitum ekki hve oft hún hefur gosið og hversu stórum gosum hún hefur gosið, hversu aflmiklum. Við höfum hvorki þekkingu né vitneskju um þetta. Á meðan það er þá er erfitt fyrir okkur að fullyrða um hvað Bárðarbunga getur gert. Það verður bara að segja þetta alveg eins og þetta er, við erum ekki búin að vinna okkar heimavinnu nægilega vel hvað þetta varðar,“ segir Þorvaldur.

„Við verðum að taka þessu með stóískri ró.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Arnþór

Stór hraun- og sprengigos á eldstöðvakerfinu

Þó deilt sé um hvort Bárðarbunga sjálf hafi gosið á síðustu öldum þá vita jarðeðlisfræðingar meira um eldstöðvakerfið sem kennt er við hana.

„Við vitum það út frá sögunni að sum af stærstu hraungosum síðan jökla leysti, áttu sér stað úti á sprungusveimunum [í eldstöðvakerfinu].“

Hann nefnir annars vegar gosið sem myndaði Þjórsárhraunið og hins vegar gosið sem myndaði Bárðardalshraunið.

Hraun rann við Stokkseyri og Eyrarbakka

„Annað þeirra fór alla leið til sjávar við Suðurströndina, þar sem Stokkseyri og Eyrarbakki eru núna. Brimgarðurinn þar fyrir utan er syðsti anginn á því hrauni. En hitt hraunið fór niður Bárðardal og í sjó fram við Skjálfanda. En þetta gerðist fyrir 8.500 árum sirka.“

Síðan þá hafa gosin farið stigminnkandi.

„Þessi gos sem hafa orðið á sögulegum tíma á Veiðivatnasveimnum, Veiðivatnagosið 1477 og svo Vatnaöldugosið 871, sem átti sér stað rétt fyrir landnám, þetta eru mjög öflug sprengigos. Þau gusu í sprungu sem eru 50 til 70 kílómetra langar á Veiðivatnasveimnum.“

Hann segir Veiðivatnagosið hafa verið eitt stærsta basíska gjóskumyndandi gos á sögulegum tíma á Íslandi.

„Það er bara Öræfajökulsgosið 1362 sem er í raun og veru stærra og öflugra sprengigos.“

Hann segir sprengivirknina í gosunum ekki til komna vegna snertingar við ís og vatn. „Þetta er allt orðið til út af kvikugösum og þenslu kvikugasa í kvikunni þegar hún er að rísa til yfirborðs.“

Veikleikar í öskjunni hugsanlega skýringin

Eins og fyrr segir á Þorvaldur þó ekki von á stóru sprengigosi úr Bárðarbungu á næstunni. En hvað gæti þá skýrt skjálftahrinuna í gær?

„Þetta geta náttúrulega líka verið hreyfingar á misgengjum og veikleikum í Bárðarbunguöskjunni. Það er líka alveg möguleiki að þetta tengist kvikuhreyfingum líka. Það er erfitt að segja hvort er hvað. Bárðarbunga hefur verið að rísa, þó að landrisið hafi verið hægt. Það bendir til þess að það sé kvika að koma þarna inn og sé að lyfta hlutunum upp. En hversu mikil kvika er þarna og hvað hún gerir í náinni framtíð, það er miklu erfiðara að segja til um,“ segir hann og heldur áfram:

„Ef við tökum mið af árinu 2014 þá er þetta örugglega lítið magn af kviku sem er undir Bárðarbungu og langsennilegast að þetta fjari út án þess að gera einhver stórvirki. Það verður alla vega ekkert stórt sprengigos.“

Hvers vegna segirðu það? Voru þetta ekki nógu öflugir skjálftar?

„Þetta kerfi hefur ekki staðið fyrir slíku í mörg hundruð ár – ekki nema skjálftavirknin fari að færa sig út í sprungusveimana, þá getum við fengið þann möguleika. En það virðist ekki vera nægt kvikumagn undir Bárðarbungu til að standa fyrir stóru sprengigosi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert