„Landskjörstjórn telur brýnt að endurskoða með heildstæðum hætti framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu, bæði hér heima og erlendis, sérstaklega með það í huga að gera hana skilvirkari og öruggari í framkvæmd.“
Svo segir í umsögn landskjörstjórnar um framkvæmd alþingiskosninganna sem fram fóru 30. nóvember sl. en umsögninni var skilað til Alþingis í gær. Þar tekur níu manna undirbúningsnefnd Alþingis við keflinu. Í nefndinni sitja tveir þingmenn frá Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Samfylkingu, en einn frá Miðflokki, Flokki fólksins og Framsóknarflokki.
Í umsögninni kemur m.a. fram að þar sem umsýsla við utankjörfundaratkvæðagreiðslu sé umfangsmikil, framkvæmdin viðkvæm fyrir utanaðkomandi þáttum, sérstaklega hvað varði flutning eða sendingar atkvæðisbréfa til meðferðar og eftir atvikum til talningar, sé hætta á að atkvæði misfarist eða verði ekki tekin til greina af ástæðum sem ekki eru á ábyrgð kjósandans sjálfs.
Landskjörstjórn tilgreinir í umsögn sinni nokkra annmarka á framkvæmd kosninganna. Segir hún að heildarmat á annmörkunum og hvort ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna sé hjá Alþingi skv. kosningalögum og tilgreinir hún þrjú atriði sem telja verði annmarka á framkvæmd kosninganna. Öll varða þau Suðvesturkjördæmi.
Fram kemur að yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis hafi upplýst landskjörstjórn um að 89 ágreiningsseðlar sem afhentir voru landskjörstjórn hafi ekki verið færðir inn í lokatölur atkvæða úr kjördæminu og þar af leiðandi hafi þeirra ekki verið getið í talningarskýrslu sem send var landskjörstjórn að kosningum loknum. Segir í umsögninni að tveir þeirra atkvæðaseðla hafi verið úrskurðaðir gild atkvæði af yfirkjörstjórn kjördæmisins, en þrátt fyrir það hafi þau atkvæði ekki verið talin með gildum atkvæðum. Þá hafi hin atkvæðin, 87 talsins, ekki verið talin með ógildum atkvæðum.
„Er ljóst að framangreint fól í sér annmarka á talningu yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi,“ segir í umsögninni.
Þá er tiltekið að 5. desember sl. hafi fulltrúi yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis afhent landskjörstjórn tvö umslög árituð til landskjörstjórnar. Í umslögunum voru utankjörfundaratkvæði, annars vegar frá yfirkjörstjórn Hafnafjarðarbæjar og hins vegar frá yfirkjörstjórn Mosfellsbæjar, sem ranglega höfðu verið sett í umslag merkt landskjörstjórn.
Þess í stað hefði átt að setja atkvæðin í þar til gert „Atkvæðaumslag“ merkt yfirkjörstjórn kjördæmisins og afhenda henni það. Segir að um leið og landskjörstjórn hafi opnað umslögin og séð hvað þau höfðu að geyma, hafi hún haft samband við yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis og óskað þess að hún sækti umslögin, enda ekki á hendi landskjörstjórnar að meðhöndla utankjörfundaratkvæði.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag