Biluð umferðarljós hægðu mjög á umferðinni

Talsverðar umferðartafir urðu á höfuðborgarsvæðinu í morgun.
Talsverðar umferðartafir urðu á höfuðborgarsvæðinu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluvert hægði á umferð við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar annars vegar og hins vegar Kringlumýrarbrautar, Laugavegs og Suðurlandsbrautar í morgun vegna bilanna í umferðarljósum.

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir við mbl.is að haft hafi verið samband við borgina og að ljósin hafi verið komin í lag skömmu síðar. Hann segir að bilunin hafi varað í um 20 mínútur.

„Það hægði aðeins meira á umferðinni heldur en venjulega en þetta fór allt vel,“ segir Árni.

Á ellefta tímanum byrjaði að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og vill Árni vara ökumenn við hálku þegar ísing myndast á blautum vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert