Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa sent forstöðumönnum hjá ríkinu bréf þar sem þeir eru hvattir til að koma með hugmyndir um hagræðingu hjá hinu opinbera.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Við biðjum ykkur vinsamlega um að senda inn tillögur um hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningar stofnana,“ segir í bréfinu sjálfu.
Fram kemur að ríkisstjórnin telji að sjónarmið stjórnenda hjá ríkinu sé mikilvægt til að fá betri innsýn í þau hagræðingartækifæri sem eru til staðar.
Samráðið kemur til viðbótar við það samráð sem ríkisstjórnin óskaði eftir við almenning í samráðsgátt.
„Tillögur, hugmyndir og sjónarmið verða til umræðu hjá starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins en niðurstöðurnar verða nýttar til að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í ríkisrekstri,“ segir í bréfinu.