Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, sat í dag sinn síðasta borgarráðsfund. 22 ár eru síðan hann var kosinn í fyrsta skipti inn í borgarráð sem aðalmaður, þar sem hann hefur setið sem aðalmaður, formaður eða borgarstjóri óslitið allar götur síðan.
Þetta kemur fram í færslu sem Dagur birti á Facebook í dag, þar sem hann nýtti einnig tækifærið til að kveðja samstarfsfólk sitt í borginni.
„Á afmælisdaginn minn, 19. júní 2003, var þessi alvarlegi gaur til vinstri - ég - kosinn í fyrsta skipti inn í borgaráð sem aðalmaður. Þetta reyndist frábært tækifæri því í gegnum fundi borgarráðs er hægt að öðlast yfirsýn og innsýn í öll málefni borgarinnar og tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun hennar og allar lykilákvarðanir,“ skrifar Dagur og vísar í mynd af sér frá því fyrir 22 árum, sem fylgir með færslunni.
Hann segir ekki þurfa að hafa mörg orð um það að Reykjavík hafi tekið algjörum stakkaskiptum á þessum tíma og eflst, hvert og hvar sem litið sé. Um það hafi hann reyndar skrifað heila bók, Nýju Reykjavík, en ætli ekki að orðlengja sig í þessari færslu.
„Ég vil hins vegar þakka öllu mínu frábæra samstarfsfólki í borgarráði gegnum árin kærlega fyrir einstakt samstarf. Og þar geri ég ekki greinarmun á borgarfulltrúum, hinu einstaka starfsfólki borgarinnar og borgarráðs eða ótölulegum fjölda samstarfsaðila. Ég stíg stoltur frá borði í borgarráði og angurværi gaurinn - ég - til hægri, þakkar fyrir sig!“
Í lokin tekur Dagur fram að borgarstjórn taki fyrir lausnarbeiðni hans á þriðjudag vegna fyrirhugaðrar þingsetu.