Landsréttur hefur þyngt dóm yfir konu sem ofsótti lesbíur á um fimm mánaða tímabili. Setti hún meðal annars poka af hundaskít á bifreið þeirra, reyndi að komast inn í hús þeirra, hótaði að drepa hunda þeirra og hvatti þær til að drepa sig.
Þetta kemur fram í dómi Landsréttar.
Fórnarlömbin eru par og þær sögðust hafa upplifað mikla hræðslu og óöryggi vegna áreitis konunnar, sem var nágranni þeirra. Konan hafði áður reynt að komast inn í húsið og einnig vakið þær með hrópum og köllum að nóttu til. Parið sagði að þetta hafi valdið þeim svefnleysi.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi konuna í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi en Landsréttur hefur þyngt refsinguna í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.
2. júlí 2022 barst tilkynning til lögreglu um að konan væri að reyna ryðjast inn í hús brotaþola. Barði hún á dyr og rúður og hótaði að skemma bifreiðar parsins en lögreglan leiddi konuna af vettvangi.
Lögreglumenn ræddu við parið á vettvangi sem útskýrði að konan hafi byrjað að áreita þær í apríl eftir að önnur þeirra bað konuna um að taka upp hundaskít eftir hundana sína.
„[Konan hafi] lýst inn í bifreið þeirra með vasaljósi, reynt að komast inn í hana, sýnt með handahreyfingum að hún ætli að skera þær á háls, barið á hurðina að sameign og reynt að komast þar inn, hótað þeim og hundum þeirra lífláti, skilið eftir poka með hundaskít á bifreið þeirra ásamt öðrum atvikum,“ segir í dómi héraðsdóms þar sem nánar er farið yfir málavexti.
Seinna sama dag, 2. júlí, var aftur óskað eftir aðstoð lögreglu vegna konunnar þar sem hún var fyrir utan hús parsins með öskur og leiðindi. Þegar lögregla bar að garði var konan farin heim til sín og lögreglan fór þangað til að ræða við hana.
Þeir sögðu henni að hún yrði handtekin ef hún færi aftur inn á lóð parsins. Henni var tjáð að hún hafi fengið fyrirmæli af fyrri afskiptum um að fara ekki aftur að tala við parið sem hún hafi ekki sinnt.
Þá svaraði konan lögreglumönnunum:
„Ég sagði að ég ætlaði að drepa hana, ég fór ekkert að tala við hana.“ Hélt hún svo áfram ítrekað að segjast vilja drepa hana. Hún neitaði því þó að hafa verið á lóð brotaþola og sagði:
„Þess vegna langar mig til að drepa hana ég get alveg sagt við hana að mig langi til að drepa hana“.
Lögreglumenn reyndu að segja henni að fara ekki þangað aftur en þá sagði hún:
„Það er ekkert ólöglegt að segja að ég vilji kála henni“, „ég er bara að segja henni að ég vilji kála henni“, „er ekkert tjáningarfrelsi hérna“.
Um kvöldið barst svo önnur tilkynning um að hún hafi sparkað í bifreið hjá parinu. Lögreglan kom aftur til hennar þar sem hún sagði lögreglunni að „fokka sér“ og skellti svo hurðinni.
Hún hótaði því að ef lögreglan myndi opna hurðina þá myndi hún mæta lögreglumönnunum með stórum hníf.
Samningamaður hringdi í konuna og hvatti hana til að koma óvopnaða úr húsinu en hún skellti á eftir nokkrar mínútur. Sérsveitin var kölluð til, hurðin brotin upp og konan handtekin.
Eins og fyrr segir þá stóðu ofsóknirnar yfir í fimm mánuði og á því tímabili notaði hún niðrandi orð til að lýsa konunum og dró einu sinni vísifingur yfir eigin háls fyrir framan þær.
Auk fjölda annarra brota í garð kvennanna.
Konunni var gert að greiða parinu samanlagt tæplega 1,3 milljónir króna í miskabætur auk þess að þurfa greiða allan lögfræðikostnað málsins fyrir parið.