Einkaþota, sem í mars í fyrra var dæmd óflughæf og kyrrsett á Egilsstaðaflugvelli, var í október tekin í sundur og send úr landi.
Þetta staðfestir Samgöngustofa í svari til Austurfréttar um örlög vélarinnar en þar kemur fram að vélin hafi verið tekin í sundur, sett í gáma og flutt úr landi. Með því að henni hafi ekki verið flogið af landi brott telst málinu lokið af hálfu íslenskra flugmálayfirvalda.
Í frétt mbl.is á síðasta ári kom fram að Samgöngustofa hafi kyrrsett dularfulla flugvél sem staðsett var á Egilsstöðum og dæmt hana ólofthæfa.
Þar kom fram að flugmaður vélarinnar hefði í mars viljað fljúga frá Höfn í Hornafirði til Bretlands og þaðan til Spánar. Ekki fékkst til þess heimild frá Samgöngustofu sökum þess að flugvöllurinn á Höfn er ekki millilandaflugvöllur. Því fór flugmaðurinn til Egilsstaða þar sem dekk sprakk í lendingu. Við skoðun Samgöngustofu kom í ljós að vélin var ekki með lofthæfisskírteini.