Nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða 7a var samþykkt í auglýsingu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gærmorgun.
Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að allt að 180 íbúðir verði á reit á Ártúnshöfða hjá BM Valla við Fornalund. Auk íbúða verður möguleiki á atvinnustarfsemi á jarðhæðum við Breiðhöfða.
Í þeim núverandi byggingum sem verða varðveittar er gert ráð fyrir minni háttar hreinlegri atvinnustarfsemi, til dæmis verslun.
„Þetta er fyrsti deiliskipulagsáfangi á lóð BM Vallár en þarna er ekkert deiliskipulag í gildi í dag. Fornilundur er innan þessa svæðis og verður varðveittur garður í borgarlandi. Honum verður gert hátt undir höfði og tengdur við græna ásinn sem gert er ráð fyrir á Ártúnshöfða,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að opinn samnýtanlegur bílakjallari verði undir einni lóðinni með samtals 147 bílastæðum en til viðbótar verða nokkur stæði á yfirborði, bæði á borgarlandi og innan lóða. Ekki er gert ráð fyrir bílaumferð á yfirborði innan lóða.
Fjögur hús eru á lóðinni í dag og munu tvö þeirra standa áfram og fá nýtt hlutverk. Það eru húsin sem nú hýsa skrifstofur og söluskrifstofur BM Vallár. Annað húsið sem verður fjarlægt er norðan við söluskrifstofur BM Vallár og hýsir verslun og lager en hitt er vestan til á svæðinu og er í dag verkstæði og starfsmannaaðstaða.
Tillögunni var vísað til borgarráðs. Skipulagsgögnin verða gerð aðgengileg inni á skipulagsgatt.is á næstunni, eftir afgreiðslu borgarráðs, og þá gefst öllum tækifæri til að koma með ábendingar á auglýsingatíma.