„Þessi vinna var sett í gang í minni tíð í ráðuneytinu og var í gangi þegar ég fór þaðan. En ég veit ekki hvað gerðist eftir þann tíma. Það verður Guðlaugur Þór að svara fyrir og ekki mitt að segja til um það,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi umhverfis- og auðlindamálaráðherra.
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í gær úr gildi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar þar sem Umhverfisstofnun var ekki heimilt, að mati dómsins, að veita heimild fyrir breytingu á vatnshloti – hvorki fyrir Hvammsvirkjun né nokkra aðra vatnsaflsvirkjun.
Greint hefur verið frá að árið 2019 varaði Umhverfisstofnun sérstaklega við því að þörf væri á skýrari reglum um heimildir stofnunarinnar vegna framkvæmda sem fela í sér breytingar á vatnshlotum, eins og til dæmis í samhengi við vatnsaflsvirkjanir. Það kom fram í minnisblaði sem Umhverfisstofnun sendi á umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Í samtali við mbl.is segist Guðmundur Ingi muna eftir að hafa fengið minnisblaðið og segir vinnu hafa verið setta í gang varðandi þær þarfir sem Umhverfisstofnun kallaði eftir.
Að hans mati fjalli minnisblaðið ekki um það sama og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi um í gær.
Segir Guðmundur dóminn segja að ekki sé heimild til að veita undanþágu til virkjunar líkt og Umhverfisstofnun veitti Landsvirkjun fyrir Hvammsvirkjun. Í minnisblaðinu frá 2019 hafi hins vegar Umhverfisstofnun verið að biðja ráðuneytið um hjálp við að útfæra frekari reglur um hvernig stofnunin gæti veitt slíkar undanþágur.
„Sú vinna var hafin, að skoða með Umhverfisstofnun hvernig væri hægt að skýra þetta betur. Vegna þess að allir stóðu í þeirri meiningu að það væri heimild til þess að veita undanþágur. Umhverfisstofnun var ekki að benda á að slíkt skorti heldur að það skorti reglur í kringum það hvernig undanþágurnar yrðu veittar.“
Segir Guðmundur að þegar sú vinna var í gangi í ráðuneytinu hafi hann lagt áherslu á að það væri tekið mið af markmiðum laga um vernd á vatni og vatnavistkerfi sem og náttúruverndarsjónarmiðum.
Nefnir hann að sú vinna hafi verið enn í gangi þegar Guðlaugur Þór Þórðarson tók við embættinu í lok árs 2021 og því þurfi hann að svara fyrir hvaða stefnu vinnan tók á þeim tíma.
Guðmundi finnst þó umræða um náttúruvernd týnast í þeirri miklu umræðu sem nú er að eiga sér stað um virkjanir í þjóðfélaginu.
„Fólkið sem stendur að þessari málshöfðun hefur verið að berjast gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár í fjölda ára út frá náttúruvernd, út frá því að þarna er stærsti laxastofn á Íslandi. Það er þarna friðlýst svæði eins og Viðey og umtalsverð samfélagsleg áhrif sem að hafa í rauninni klofið samfélagið þarna í langan tíma.“
Þá segir fyrrum umhverfisráðherrann það vera alvarlegt að Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar og Jóhann Páll Jóhannsson, núverandi umhverfisráðherra, tali ekki um málið út frá náttúruvernd.
„Mér finnst mjög alvarlegt að ráðherrann geri það ekki því að hann er ráðherra náttúruverndar.“
„Báðir tengja þeir þetta við að mikið sé í húfi fyrir loftslagsmarkmið. Ég hef hins vegar hvergi séð að þessa orku eigi að nota sérstaklega í orkuskipti í þágu loftslagsmála og mér finnst alvarlegt að það sé verið að stilla Hvammsvirkjun upp sem aðgerð í loftslagsmálum því ég hef hvergi séð að það fái staðist nokkra skoðun þannig svona er verið að þyrla ryki upp í augun á almenningi að mínu mati,“ segir Guðmundur.
Varðandi framhaldið nefnir hann að ef stjórnvöld vilji breyta lögunum þá sé sérstaklega mikilvægt að huga að markmiðum laga um stjórn vatnamála og að lög og reglur verði strangar með tilliti til náttúruverndar.
„Vegna þess að markmið laga um stjórn vatnamála er einfaldlega að vernda vatn og vatnavistkerfin. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að við horfum til þeirra þátta ef að breytingar verða gerðar á löggjöfinni því að lögin um stjórn vatnamála snúast ekki um að leyfa virkjanir heldur að vernda vatn og vatnavistkerfi.“
Þá segir hann að mikilvægt sé að gæta að náttúruverndarsjónarmiðum í þeirri vinnu.
„Við eigum á Íslandi ósnortið og lítt snortið vatnasvið sem er orðið bara mjög fátítt í heiminum þannig að okkur ber skylda til að standa vörð um þau gæði og náttúruverðmæti sem í því fela.“