Tilkynnt um nauðgun annan hvern dag

Tilkynningar um kynferðisbrot í fyrra voru 568 talsins.
Tilkynningar um kynferðisbrot í fyrra voru 568 talsins. mbl.is/Golli

Lögreglu var á síðasta ári tilkynnt 568 sinnum um kynferðisbrot. Fjölgaði þeim um 10% frá árinu á undan. Tilkynningum um brot gegn börnum fjölgar umtalsvert á milli ára.

Þetta kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot á síðasta ári.

Í fyrra var tilkynnt um 185 nauðganir til lögreglu, eða rúmlega ein tilkynning annan hvern dag allt árið. Þar af voru 130 tilkynningar vegna nauðgana sem áttu sér stað á árinu. Tilkynningum um nauðganir fjölgaði um 3% miðað við árið 2023. Ef horft er til meðaltals tilkynninga síðustu þrjú ár þar á undan, fækkaði þeim um 14%.

Konur 88% brotaþola í öllum kynferðisbrotum

Konur voru 88% brotaþola í öllum kynferðisbrotum sem tilkynnt voru til lögreglu. Hlutfallið var enn hærra þegar horft var til nauðgana, þar voru 95% brotaþola kvenkyns. 

Hlutföllin snúast við þegar kemur að kyni grunaðra, þar voru 94% karlkyns í kynferðisofbeldismálum sem tilkynnt eru til lögreglu.

Tæplega helmingur undir 18 ára

Meðalaldur brotaþola var 23 ár, á meðan meðalaldur grunaðra var 34 ár. Um 46% brotaþola voru undir 18 ára í öllum kynferðisbrotum á meðan 12% grunaðra voru undir 18 ára.Hlutfall brotaþola undir 18 ára í nauðgunarbrotum var 36% og hlutfall grunaðra undir 18 ára var 17%. 

Alls var tilkynnt um 126 kynferðisbrot gegn börnum og samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára var 6% fjölgun slíkra mála. Tilkynningar um barnaníð voru 40, sem er rúm 22% fjölgun slíkra tilkynninga samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan.  

Í þolendakönnun lögreglunnar árið 2023 meðal 18 ára og eldri kom fram að 1,9% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðisbroti (þvingað eða reynt að þvinga til kynferðislegra athafna, gripið í eða verið snert kynferðislega gegn vilja sínum). Þar af höfðu 10% tilkynnt það til lögreglu.

Skýrslan í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert