Jakob Þ. Möller, lögfræðingur og fulltrúi í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, lést á Vífilsstöðum í Garðabæ 14. janúar sl., 88 ára að aldri.
Jakob fæddist í Reykjavík 28. október 1936. Foreldrar hans voru Gunnar J. Möller, hæstaréttarlögmaður og forstjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur, og Ágústa Sigríður Johnsen Möller.
Jakob lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1956. Hann stundaði nám í læknisfræði við Háskóla Íslands 1956-58, lauk þar prófi í forspjallsvísindum vorið 1957 og kenndi síðan við framhaldsskóla í Reykjavík 1958-1961. Þá hóf hann laganám við Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi í lögum vorið 1967. Þá réðst hann sem fulltrúi Sýslumannsins í Suður-Múlasýslu á Eskifirði, en frá ársbyrjun 1968 var hann fulltrúi Bæjarfógetans í Keflavík. Árið 1971 var hann ráðinn til starfa hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og þar varð ævistarf hans, fyrst í höfuðstöðvum SÞ í New York, en síðar í Genf í Sviss, eftir að skrifstofa mannréttindanefndarinnar flutti þangað.
Jakob var árið 1996 kosinn af ráðherranefnd Evrópuráðsins til að vera dómari við alþjóðlegan mannréttindadómstól fyrir Bosníu og Hersegóvínu og starfaði þar, uns störfum dómstólsins lauk árið 2003. Eftir það flutti Jakob fyrirlestra um mannréttindi víða um heim og út var gefin bókin International Human Rights Monitoring Mechanisms til heiðurs honum. Forseti Íslands sæmdi Jakob fálkaorðunni fyrir mannréttindastörf á alþjóðavettvangi 1998 og hann var einnig útnefndur heiðursprófessor við Háskólann á Akureyri.
Jakob kvæntist 1968 Þórunni Wathne cand. jur. Foreldrar hennar voru Stefán Wathne framkvæmdastjóri og Soffia Guðrún Hafstein Wathne. Jakob og Þórunn skildu. Sonur þeirra er Gunnar Stefán, f. 1969. Hann er með BA-próf í stjórnmálafræði og Sovétfræðum við Harvard-háskóla.
Seinni kona Jakobs var Maria Isabel Contreras. Þau bjuggu í bænum Cessy í Frakklandi, nærri Genf. Þau skildu. Jakob flutti alkominn til Íslands árið 2017, eftir að hafa verið hér með annan fótinn í nokkur ár.