Reyndi að lokka stúlkubarn í Laugardalnum

Leit að manninum hefur ekki borið árangur.
Leit að manninum hefur ekki borið árangur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður reyndi að lokka stúlkubarn í Laugardalnum síðdegis í gær en í færslu í íbúahópi Langholtshverfis á Facebook segir kona frá því að maður hafi elt 13 ára dóttur sína.

Konan greinir frá því dóttir sín hafi verið á heimleið eftir íþróttaæfingu um klukkan 18 í gær og þegar hún hafi verið að ganga í átt að Áskirkju nálægt Grasagarðinum heyrði hún mann sem stóð á bak við tré segja „komdu“.

„Hún öskraði á hann og hljóp í áttina að Laugarásvegi og maðurinn á eftir henni,“ skrifar móðirin í færslunni.

Hún segir að fólk í hlaupahópi hafi stöðvað og hjálpað dóttur hennar og leitað að manninum sem hafi falið sig. Stúlkan hafi síðan hlaupið heim án þess að líta til baka. Hún lýsir manninum sem stórum og sterkbyggðum. Hann hafi verið klæddur svartri eða dökkri úlpu með hettuna uppi en gat ekki gefið greinagóða lýsingu á manninum enda var myrkur á svæðinu.

Unnar Már Ástþórsson, lögregluvarðstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi brugðist skjótt við þegar hún fékk tilkynningu um málið en leit að manninum hafi ekki borið árangur. Hann segir að lögreglan muni áfram vinna í málinu en atvik af þessu tagi geti verið þung í skoðun og úrvinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert