Komur skemmtiferðaskipa/farþegaskipa til Reykjavíkur í sumar eru áætlaðar 238 en sumarið 2024 voru þær 259.
Hins vegar er farþegafjöldinn svipaður og í fyrra en skiptifarþegaum fjölgar verulega.
Fækkun í komum farþegaskipa má fyrst og fremst rekja til þess að færri svokölluð leiðangursskip eru bókuð í sumar en í fyrra. Þá voru komur þeirra 127 en í sumar eru 107 komur bókaðar, samkvæmt upplýsingum Sigurðar Jökuls Ólafssonar markaðsstjóra Faxaflóahafna.
Enn eru rúmir tveir mánuðir þar til vertíð skemmtiferðaskipanna hefst og tölurnar geta breyst á næstu vikum.
Leiðangursskipin taka við nýjum gestum í Reykjavík og sigla svo hringinn í kringum Ísland og til Grænlands, Svalbarða og Færeyja. Í einhverjum tilvikum lýkur ferðinni í Noregi eða annars staðar, en mjög oft snúa skipin aftur til Reykjavíkur og ferðinni lýkur þar. Þessi skip koma flest margoft til Reykjavíkur yfir sumarið.
Leiðangursskipin koma við í mörgum höfnum á Íslandi og fylgja þessum heimsóknum mikil viðskipti fyrir heimamenn. Stundum eru mörg skip í höfn samtímis, t.d. á Ísafirði og Akureyri.
Nokkrar útgerðir hafa afbókað komur til íslenskra hafna í sumar og næsta sumar. Er það m.a. rakið til innviðagjalds á skemmtiferðaskip, sem tók gildi um síðustu áramót. Þetta mun hafa áhrif á tekjur hafnanna og þar með tekjur viðkomandi sveitarfélaga.
Komur stórra skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í sumar verða nánast jafn margar og í fyrra. Bókuð er koma 131 skips en þær voru 132 í fyrra.
Farþegar með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í fyrra voru samtals 321.966. Það var algert met. Í sumar eru 320.595 farþegar bókaðir en sem fyrr segir kunna tölurnar að breytast þegar líður á árið.
Af þessum fjölda eru rúmlega 168 þúsund svokallaðir skiptifarþegar. Er þá átt við farþega sem koma til Keflavíkurflugvallar með flugi og fara um borð í skipin í Reykjavík.
Þeir stíga svo frá borði í Reykjavík að siglingu lokinni og halda til síns heima með flugi. Farþegarnir eru tékkaðir inn eða út í Sundahöfn eða á Miðbakka í Gömlu höfninni.
Er þetta fjölgun skiptifarþega um tæplega 16 þúsund milli ára. Hlutfall skiptifarþega af heildarfjöldanum er áætlað 52,4% og hefur aldrei verið hærra. Í fyrra var hlutfallið 48,6%
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 16. janúar.