Stefnir í hallarbyltingu í Framsóknarflokknum um svipað leyti og Sjálfstæðisflokkurinn velur nýja forystu? Ljóst er að alþingiskosningarnar 30. nóvember síðastliðinn draga dilk á eftir sér á mörgum vígstöðvum, ekki aðeins meðal þeirra flokka sem hreinlega hurfu út af þingi.
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins rýnir í spilin á stjórnmálasviðinu ásamt Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Ölfuss í nýjasta þætti Spursmála. Síðustu vikur hefur Elliði verið orðaður við embætti formanns Sjálfstæðisflokksins. En hvert stefnir hugur hans?
Allt þetta og meira til í nýjasta þætti Spursmála. Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptöku af honum má nálgast í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube og er öllum aðgengileg.
Á sama tíma og allt leikur á reiðiskjálfi í pólitíkinni er allt í uppnámi í orkuheiminum vegna Hvammsvirkjunar. Sumir fagna dátt meðan aðrir sýta sárt í kjölfar þess að héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Umhverfisstofnun hefði ekki heimild til þess að veita undanþágu frá vatnatilskipun Evrópusambandsins.
Til þess að ræða þá stöðu sem komin er upp í tengslum við þessa fyrirhuguðu ríflega 70 milljarða framkvæmd Landsvirkjunar mæta þeir til leiks, Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku og Snæbjörn Guðmundsson, formaður Náttúrugriða.
Ekki missa af líflegri og upplýsandi samfélagsumræðu í Spursmálum hér á mbl.is alla föstudaga kl. 14.