Þórður Snær Júlíusson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar.
Hann tekur við stöðunni 4. febrúar og mun þá væntanlega sama dag formlega afþakka þingsæti sitt.
Þórður greinir frá þessu á Facebook.
Hann segir að þó starf hans sem framkvæmdastjóri hefjist formlega í næsta mánuði þá sé hann þegar byrjaður að starfa sem slíkur. Þing kemur saman 4. febrúar en Þórður var kjörinn inn á þing.
Í kjölfar umfjöllunar um bloggfærslur hans tilkynnti hann að hann myndi afþakka þingsæti sitt yrði hann kjörinn. Hann getur gert það formlega þegar þing kemur saman.
„Ég hlakka mjög til að hjálpa við að breyta samfélaginu til hins betra með öflugri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og frábærum hópi þingmanna,“ skrifar hann.