Undirbúa vatnsaflsvirkjun á Austurlandi

Grafík/mbl.is

Geitdalsá verður stífluð í farvegi sínum og vatni veitt í sjö kílómetra langri pípu að stöðvarhúsinu. Síðan mun allt vatn sem fer í gegnum stöðvarhúsið skila sér aftur í ána örlítið neðar,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro hf. sem er eigandi Geitdalsárvirkjunar ehf., framkvæmdaraðila nýrrar virkjunar í Geitdalsá í Múlaþingi.

Skírnir segir uppsett afl virkjunarinnar verða 9,9 MW og orkugetu um 56 GWst á ári. Fallhæðin verði 250 metrar og lónhæð á bilinu 445-457 m.y.s. Flatarmál uppistöðulónsins sem kallað er Hesteyrarlón verður 36 hektarar við hæsta vatnsborð og 10 hektarar við lægsta vatnsborð.

Skírnir Sigurbjörnsson,
Skírnir Sigurbjörnsson,

Sjö kílómetra fallpípa

„Gert er ráð fyrir að allt efni í stífluna verði hægt að vinna úr námum í nágrenninu. Fallpípan, sem flytur vatnið frá inntakslóni að stöðvarhúsi, verður niðurgrafin plasttrefjapípa, tæplega 7 kílómetra löng.“

Í umhverfismatsskýrslunni sem Cowi vann fyrir framkvæmdaraðila kemur fram að þvermál vatnspípunnar verði á bilinu 1,5-1,7 metrar. Stöðvarhúsið verður ofanjarðar, á einni hæð.

Undir og frá stöðvarhúsinu verður 20 metra langur niðurgrafinn og steyptur frárennslisstokkur, sem veitir vatninu frá hverflinum út í 55 metra frárennslisskurð, niður í Geitdalsá.

Staðsetning virkjunarinnar

Skriðdalur liggur til suðurs úr Fljótsdal. Innst í dalnum skiptir fjallið Þingmúli Skriðdal upp í tvo dali. Sá austari er Suðurdalur, en þjóðvegurinn upp á Öxi liggur um þann dal. Vestari dalurinn er Norðurdalur og Geitdalur þar innarlega. Um dalinn rennur samnefnd á þar sem virkjunin er áformuð.

Geitdalsá er dragá sem á upptök sín á hálendinu. Megininnrennslið er úr Leirudalsá og við ármót Leirudalsár og Geitdalsár rennur sú síðarnefnda til norðurs niður Geitdal, þaðan niður Norðurdal og sameinast svo Múlaá í Skriðdal. Saman mynda þessar ár Grímsá, sem rennur út í Lagarfljót rúmum 6 kílómetrum frá Egilsstöðum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 16. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert