„Stóra málið í mínum huga er að framkvæmd kosninga á að heppnast betur en að það þurfi að reyna á það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvort atkvæði hafi skilað sér. Það er auðvitað ekki gott.“
Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.
Undirbúningsnefnd Alþingis fyrir rannsókn kosninga kom saman til fundar með landskjörstjórn í gær en landskjörstjórn telur brýnt að endurskoða með heildstæðum hætti framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu, bæði hér heima og erlendis, sérstaklega með það í huga að gera hana skilvirkari og öruggari í framkvæmd.
Heill kassi með utankjörfundaratkvæðum skilaði sér ekki á talningarstað í Norðausturkjördæmi og 25 utankjörfundaratkvæði urðu innlyksa á bæjarskrifstofum Kópavogs daginn fyrir kosningar en það uppgötvaðist ekki fyrr en tveimur dögum eftir þær.
Segist ráðherra geta verið heiðarleg með að hún pirrist yfir að lesa að framkvæmdin hafi verið með þessum hætti.
„Svona framkvæmd og fréttir af henni geta haft áhrif á traust fólks til kosninga þannig að mér er síður en svo skemmt.“
Spurð hvort það skjóti ekki skökku við að þingmannanefnd skoði framkvæmd sem geti haft áhrif á það hverjir hljóti þingsæti og hverjir ekki segist Þorbjörg geta skilið að fólki finnist það sérstakt en reglurnar séu einfaldlega með þeim hætti og þannig sé fyrirkomulagið á Íslandi.
„Stóra málið er að svona framkvæmd verður bara að vera í lagi og við ættum ekki að þurfa að sitja hér og eiga þetta samtal.“
Þá segir Þorbjörg það sjálfstætt samtal hvort skoða þurfi regluverkið í kringum utankjörfundaratkvæðagreiðslur almennt séð eða í kjölfar þessa máls.
Viðreisn hefur talað fyrir því að jafna vægi atkvæða. Hver er þín afstaða til þess? Ætti landið allt jafnvel að vera eitt kjördæmi?
„Áherslupunkturinn hefur verið þetta jafnræðismál um vægi atkvæða fremur en að horfa til þess að landið verði eitt kjördæmi. Það hefur verið afstaða Viðreisnar og ég er höll undir slík sjónarmið, já.“