Snjó hefur kyngt niður á Akureyri frá því seint í gærkvöld. Að sögn lögreglunnar hafa ekki skapast nein vandræði vegna ofankomunnar.
„Það kyngdi vel niður snjó í nótt og það eru kannski eitthvað um 20 sentímetrar af jafnföllum púðursnjó í bænum og það snjóar enn,“ segir Árni Páll Jóhannsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, við mbl.is.
Hann segir að mokstursmenn hafi farið snemma út í morgun og lögreglan hafi ekki fengið nein verkefni innanbæjar eða á fjallvegum tengd snjó eða ófærð.
Árni segir að það hafi verið allt autt áður en það byrjaði að snjóa í gærkvöld og því hafi enginn gamall snjór verið að þvælast fyrir.