Hrollvekjan The Damned, eða Hinir fordæmdu eins og myndin gæti heitið á íslensku, er erlend framleiðsla en leikstjórinn Þórður Pálsson er alíslenskur. Hugmyndina hefur hann gengið lengi með í maganum og eftir margra ára ferli, mikla vinnu og dugnað er sagan hans loks komin á hvíta tjaldið. Myndin hefur nú þegar verið frumsýnd í Bretlandi og Bandaríkjunum og fengið lofsamlega dóma, meðal annars í New York Times. The Damned, sem er á ensku, leggst vel í Kanann og var hún tekjuhæsta nýja myndin um frumsýningarhelgina. Íslendingar fá svo að berja hana augum 30. janúar.
Sagan gerist í lok nítjándu aldar og segir af fólki í verbúð sem verður vitni að sjóslysi. Erfiðar ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið draga dilk á eftir sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og hryllingi!
Á Óðinsgötu heima hjá Þórði var gott að setjast niður yfir kaffi og spjalla. Þar býr hann ásamt kisunni Gosa og kærustu sinni Dóru Hrund, en henni kynntist hann einmitt við tökurnar á The Damned.
Spurður um kveikjuna að sögunni segist Þórður hafa fengið hugmyndina fyrir átta árum.
„Ég var að skrifa annað handrit og flutti vestur á Ísafjörð í þrjá mánuði. Ég kom ekki bílnum úr innkeyrslunni og það var allt á kafi í snjó. Ég þekkti engan þarna, en var reyndar með vini mínum frá Suður-Afríku sem hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt. Ég náði aðeins að upplifa landið á annan hátt í gegnum hann. Ég byrjaði þá að skrifa þetta sem hliðarsögu, en hafði heyrt sögur um hluti sem gerðust í gamla daga í fátækum fiskiþorpum; sögur um að slökkt hefði verið á vitum og skip sem steyttu á skerum; af fólki sem fann hluti í fjörunni og sögur af draugum,“ segir Þórður og segist hafa farið að íhuga uppruna drauga.
„Margar sögur enda ofan í skúffu en það er alltaf ástæða fyrir því ef maður getur ekki gleymt hugmyndinni og þróar hana áfram. Í þessu tilviki var það móralska spurningin sem kviknar í myndinni sem dró mig áfram.“
Tökur hófust á Vestfjörðum í febrúar 2023 og stóðu yfir í sex vikur. Leikarar og tökulið þurftu að þola ískulda á setti, enda hávetur á hjara veraldar.
„Þetta er mjög íslensk mynd að því leyti að við erum að vinna í gríðarlegum kulda fyrir vestan. Það eru engir aðstoðarmenn fyrir leikarana og þau eru öll í períóðubúningum alveg að frjósa! Þau voru að drepast úr kulda og vildu bara klára senurnar. Ég var þarna í 66° úlpunni minni með trefil að biðja þau að leika senuna einu sinni enn,“ segir hann og brosir.
„Reyndar missti ég um tíma alveg tilfinninguna í stóru tánum,“ segir hann.
„Svo vorum við úti á sjó á árabát og þetta voru engir sjómenn. Þetta var mjög metnaðarfull bíómynd að gera á sex vikum,“ segir Þórður.
„Við byggðum sett inni í gamalli netaverksmiðju þar sem innisenurnar voru teknar. Á miðri leið þurftum við að breyta planinu. Við vorum búin að skjóta helling af útisenum en vöknuðum einn daginn og snjórinn var farinn. Við skutum því allar innisenurnar og biðum til guðs að aftur færi að snjóa. Ég hringdi í ömmu Huldu, sem er í betra sambandi við almættið, og hún lofaði að tala við guð. Byrjar þá bara ekki að snjóa!“
Ýmislegt fór úrskeiðis við gerð kvikmyndarinnar; fleira en veðrið. Í myndinni átti að vera vinalegur hundur sem síðar myndi breytast í óargadýr.
„Hann átti að spila stóra rullu. Því miður fékk hann sviðsskrekk. Aumingja hundurinn þoldi ekki stressið að hafa fimmtíu til sextíu manns að horfa á hann leika,“ segir Þórður og hlær.
„Aumingja kallinn.“
Þórður segist nú vera búinn að sleppa „barninu“ sínu út í heim. Nú er hann önnum kafinn í viðtölum við blaðamenn víðs vegar að.
„Ekki gúggla nafnið mitt á YouTube,“ segir hann og hlær.
„Aðalatriðið er að myndin hefur fengið svo góða dóma úti. Ég er búinn að læra að dómar skipta máli, en hún fær 91% á Rotten Tomatoes. Það var fjallað um myndina í Variety og New York Times og þau voru mjög hrifin. Það tala allir um þetta andrúmsloft í myndinni. Svo tala allir um Odessu Young sem leikur Evu. Hún er ung en með þroskaða sál. Hún er framtíðarstjarna í Bandaríkjunum og lék nýverið í nýju Bruce Springsteen-myndinni,“ segir hann.
Ertu ánægður að hafa valið þetta starf, að vera kvikmyndaleikstjóri?
„Já, ég er að lifa drauminn minn. Ég er alinn upp af dásamlegri móður og fékk það í veganesti að ég gæti gert allt sem ég vildi. Ég set mér raunhæf markmið fyrir framtíðina og tek eitt skref í einu,“ segir Þórður og segist stefna hátt. Hann vildi ekki vera í neinu öðru starfi.
„Ég er ekki góður í neinu öðru.“
Ítarlegt viðtal er við Þórð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.