Kanna möguleika á nýjum golfvelli í Hafnarfirði

Kylfingar á Hvaleyrarvelli.
Kylfingar á Hvaleyrarvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur samþykk að stofnaður verði starfshópur sem hafi samráð við hagaðila um nýjan golfvöll í landi Hafnarfjarðar.

Frá þessu er greint á vef Hafnarfjarðarbæjar en þar segir að starfshópurinn eigi að finna nýjum golfvelli stað í landi Hafnarfjarðar. Það verður gert í samráði við hagsmunaaðila, þar á meðal Golfklúbbinn Keili og Golfklúbbinn Setberg.

Meginverkefni hópsins er að kanna mögulegar staðsetningar fyrir nýjan golfvöll í landi Hafnarfjarðar, koma með tillögu að staðsetningu og að móta tillögur um gerð vallar og fyrirkomulag rekstrar á nýjum golfvelli.

Á síðasta ári bárust bæjarráði bréf frá golfklúbbunum Keili og Setbergi þar sem þeir óskuðu eftir viljayfirlýsingu um nýja velli. Í bréfi Golfklúbbsins Keilis segir að um 4.500 manns séu á biðlistum golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu. Félagsmenn klúbbsins séu 1.850 og biðlistinn lengist á hverju ári.

Golfklúbburinn Setberg benti einnig á langan biðlista. Meðlimir væru nú 900 og hundruð bíði á hliðarlínunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka