Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til vegna ágreinings um bifreiðakaup en þar hafði komið upp ósætti með ástand bifreiðarinnar. Lögregla leiðbeindi eiganda og fyrrverandi eiganda um næstu skref.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Í miðbæ Reykjavíkur var lögregla kölluð til þar sem dyraverðir héldu manni eftir átök. „Við rannsókn málsins kom í ljós að maðurinn hafði látið mjög ófriðlega og virtist hafa verið upphafsmaður slagsmálanna,“ segir í dagbókinni.
Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, sektaði ökumann fyrir of hraðan akstur en hann ók á 140 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.
Sömu lögreglustöð var tilkynnt um yfirstandandi innbrot þar sem nokkrir voru að reyna komast inn í gám. „Rætt var við aðilana á vettvangi og gátu þeir að einhverju leyti gefið eðlilegar skýringar á málinu,“ segir í dagbókinni.
Lögreglustöð fjögur, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um slagsmál við bensínstöð þar sem tveir voru að ráðast að einum. „Þegar gerendur ætluðu að fara af vettvangi á bifreið tókst það ekki betur en svo að þeir bökkuðu bifreið sinni á aðra áður en þeir óku á brott. Málið er í rannsókn,“ segir í dagbók lögreglu.