Lögregla veitti ökumanni bifreiðar eftirför í miðbæ Reykjavíkur. Þegar ökumaðurinn var króaður af reyndi hann að hlaupa í burtu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
„Lögregla hafði afskipti af ökumanni bifreiðar en við afskiptin reyndi ökumaður að komast undan lögreglu á bifreiðinni. Eftir eftirför um miðbæ Reykjavíkur var ökumaður bifreiðarinnar króaður af og reyndi hann þá að hlaupa frá bifreiðinni og lögreglu en hafði ekki erindi sem erfiði,“ segir í dagbókinni.
Þá kemur fram að farþegi bifreiðarinnar hafi einnig reynt að hlaupa undan lögreglu.
Ökumaðurinn og farþeginn voru báðir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins, en þeir reyndust vera undir áhrifum áfengis.