„Mér finnst mjög dýrmætt að fá hans starfskrafta inn til þingflokksins. Hans reynsla, þekking og samfélagssýn held ég að muni nýtast þingflokknum afar vel,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar en stjórn þingflokksins hefur gengið frá ráðningu Þórðar Snæs Júlíussonar í starf framkvæmdastjóra þingflokksins.
Þórður Snær skipaði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum og var kjörinn á þing. Hann ætlar þó ekki að þiggja sætið.
Ástæðan er skrif fjölmiðlamannsins fyrrverandi á blogginu „Þessar elskur“ sem hann hélt úti árin 2006-2007 en fyrst var fjallað um bloggskrifin í Spursmálum á mbl.is. Skrifaði Þórður undir dulnefni óviðurkvæmilegar greinar um konur sem hann sagði m.a. vera lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur.
Skrif Þórðar vöktu mikla athygli og þótti mörgum réttast að hann stigi til hliðar. Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sagði skrifin engan veginn endurspegla stefnu flokksins sem hefði verið í fararbroddi á sviði jafnréttismála og að hann ætti að skammast sín. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og ráðherra, sagði Þórð þurfa „að hreinsa þetta almennilega upp til að endurheimta trúverðugleika sinn“.
Tveimur vikum fyrir kosningar tilkynnti Þórður Snær að hann myndi ekki taka sæti á þingi yrði hann kjörinn. Í yfirlýsingu kvaðst hann bera alla ábyrgð á þeim bloggskrifum sem hefðu birst og að hann skammaðist sín djúpt fyrir þau.
„Nú er mér ljóst að áframhaldandi vera mín á lista er til trafala og er mörgum þung. Þess vegna tilkynni ég hér með að ég mun ekki taka þingsæti hljóti ég slíkt í kosningunum eftir tvær vikur heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti mitt,“ skrifaði Þórður.
Guðmundur Ari segir að sem þingflokksformaður fái maður það verkefni að reyna að manna öflugan hóp. „Ég tel að við höfum náð góðri ráðningu sem mun hjálpa verkefninu.“
Hvernig var staðið að ákvörðuninni um ráðningu Þórðar Snæs sem framkvæmdastjóra þingflokksins?
„Ný stjórn þingflokks ber ábyrgð á því að ráða starfsfólk til þingflokksins,“ segir Guðmundur. Stjórnin hafi tekið þá ákvörðun að leita til Þórðar og beri ábyrgð á henni. Ákvörðun stjórnarinnar hafi svo verið kynnt fyrir þingflokki og sátt sé um ráðninguna.
Spurður hvernig standi á því að Þórður geti gegnt slíku ábyrgðarstarfi fyrir þingflokkinn að loknum kosningum þegar hann gat ekki vegna ummæla sinna tekið sæti á Alþingi segir Guðmundur Ari ákvörðunina um að Þórður tæki ekki sæti, hans sjálfs. Segist Guðmundur virða þá ákvörðun við Þórð en stjórn þingflokksins hafi leitað til hans til að fá hans öflugu starfskrafta.
Inntur eftir því hvort ráðning Þórðar Snæs væri eitthvað sem kjósendur hefðu mátt gera ráð fyrir þegar Þórður var fenginn til að lofa að víkja af lista í aðdraganda kosninga, segist Guðmundur ekki telja þá hafa sérstakar væntingar um það hverjir starfi fyrir flokkinn og segir að ekki sé beint kosið um það. Þá ítrekar Guðmundur að Þórður hafi tekið ákvörðunina að taka ekki sæti á Alþingi einn og óstuddur.
Var að þínu mati heiðarlegt gagnvart kjósendum að upplýsa þá ekki fyrir kosningar um að ætlunin væri að fela Þórði slíkt ábyrgðarstarf á vegum flokksins eftir kosningar í ljósi umræðu um skrif hans og eftirmálana af þeim?
„Það er mikilvægt að halda því til haga að það var engin ákvörðun tekin fyrir kosningar. Ég var ekki kominn í þetta embætti eða aðrir stjórnamenn þingflokksins sem berum ábyrgð á þessari ákvörðun. Þannig að það er kannski ekki hægt að stilla þessu svona upp.“
Hvað það varðar að nær hafi verið að Þórður hafi verið áfram í framboði til þingsætis og kjósendum gefið tækifæri til að taka afstöðu til hans persónu í kjörklefanum segir Guðmundur að Þórður hafi verið algjörlega heiðarlegur gagnvart kjósendum. „Hann tekur þá ákvörðun að hann muni ekki þiggja sæti og hann stendur við þá ákvörðun.“
Hefur Þórður Snær þegið þingfararkaup frá kosningum og greiðir Alþingi laun hans sem framkvæmdastjóra þingflokks?
„Hver þingflokkur fær úthlutað frá Alþingi ákveðið mörgum stöðugildum eftir fylgi þeirra,“ segir Guðmundur sem þýðir að Þórður Snær fær sem framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar greidd laun frá Alþingi.
Þá segir Guðmundur kerfið virka þannig að allir þingmenn fái greidd laun sjálfvirkt sem ekki er hægt að afþakka, svo Þórður hefur verið á þingfararkaupi eins og aðrir þingmenn. Bætir Guðmundur við að Þórður geti ekki sagt af sér þingmennsku fyrr en við þingsetningu og að hann eigi rétt á biðlaunum frá þeim degi. Hægt sé að afþakka þau, sem Þórður muni gera.