Ölfusá flæðir yfir bakka sína með þeim afleiðingum að sumt fólk hefur orðið innlyksa síðasta sólarhring. Bóndi nálægt flóðinu segir að vatnið þeki mörg hundruð hektara og myndir sýna raunverulegt umfang flóðsins.
Einar Sindri Ólafsson er búsettur á Selfossi en í dag og í gær hefur hann tekið drónamyndir sem hann hefur góðfúslega veitt mbl.is leyfi til að birta.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ölfusá flæðir yfir bakka sína en þetta er þó með stærri flóðum síðustu áratugi.
„Maður hitti fólk við flóðið í gær og þar var verið að rifja upp öll gömlu flóðin,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
mbl.is greindi frá því fyrr í kvöld að erlend kona hafi orðið innlyksa í sumarbústað vegna flóðsins. Björgunarsveitarmenn fóru í morgun á báti og sigldu yfir tún til þess að koma konunni til bjargar.
Kristbjörg Eyvindsdóttir, bóndi á bænum Grænhóli í Ölfusi, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að vatn hefði flætt yfir mörg hundruð kílómetra.
Olíubílstjórinn Heimir Hoffritz hefur einnig fest á filmu stórkostlegar myndir af flóðinu og veitt mbl.is leyfi til að birta þær. Hægt er að nálgast fleiri myndir hjá honum á heimasíðu hans.
Hann býr við bakka Ölfusár og því ekki langt fyrir hann að fara til þess að skoða aðstæður á vettvangi.