Sendiherra gerist leikari

Franski sendiherrann, Guillaume Bazard, lék lítið hlutverk í Vigdísi á …
Franski sendiherrann, Guillaume Bazard, lék lítið hlutverk í Vigdísi á móti Elínu Hall, þrátt fyrir að hafa enga reynslu af leiklist. Hann stóð sig með prýði.

Sendiherrabústaður Frakka við Skálholtsstíg er glæsilegt hús. Þar hafa allir franskir sendiherrar búið og í dag býr þar sendiherrann Guillaume Bazard. Hér hefur hann nú starfað í rúm tvö ár en vann áður í áratugi sem diplómat víða um heim. Bazard hefur búið í Noregi, Indlandi, Bosníu, Portúgal, Bretlandi og nú á Íslandi. 

Helgarnar á fjöllum

Mér skilst að þú sért alltaf á fjöllum?

„Ekki kannski alltaf. Ég er nú stundum á skrifstofunni, segir hann og hlær.

Guillaume Bazard elskar að vera á Íslandi.
Guillaume Bazard elskar að vera á Íslandi. mbl.is/Ásdís

„En um helgar, ef veður leyfir, fer ég í fjallgöngur eða út í náttúruna. Mig langar að sjá eins mikið og ég get af landinu. Ég nýt þess líka að keyra um landið með myndavélina, en ég er amatörljósmyndari og stoppa gjarnan þegar ég sé eyðibýli eða fallega birtu og mynda. Oftast fer ég einn en mig langar að fá son minn með mér næsta sumar í alvörufjallgöngu,“ segir Bazard og viðurkennir að það geti verið erfitt að dvelja langdvölum frá fjölskyldunni en hann á eftir að búa og starfa hér í tvö ár í viðbót.

Tökur hefjast í fyrramálið

Sendiherranum er margt til lista lagt en hann tók nýlega að sér hlutverk frönskukennara í þáttum Vesturports um Vigdísi forseta. Þar var hann ekki mjög liðlegur við hina ungu Vigdísi sem bað um að einkunn yrði endurskoðuð.

Bazard skellihlær þegar spurður hvort hann sé orðinn sjónvarpsstjarna í hjáverkum.

„Ég myndi ekki orða það svo.“

Hvernig kom það til að þú fékkst þetta hlutverk?

„Það er góð spurning! Þú gætir kannski komist að því fyrir mig. Þau í Vesturporti hringdu í mig og spurðu hvort ég gæti leikið hlutverkið. Ég þakkaði fyrir en sagðist ekki hafa tekið einn einasta leiklistartíma á lífsleiðinni og aldrei leikið neitt, ekki einu sinni í barnaskóla. Ég sagðist samt vera allur af vilja gerður að hjálpa til og fékk sendar þessar línur. Svo heyrði ég ekkert í tvo mánuði og fékk svo skilaboð um að tökur hæfust í fyrramálið,“ segir hann og hlær.

„Þetta er afar lítið hlutverk; ég er kannski þrjátíu sekúndur á skjánum. Ég er frekar stífur og leiðinlegur við Vigdísi og segi að ekki sé hægt að víkja frá reglum. Þetta var mjög spennandi og þrátt fyrir að vera bara í einni senu var ég á settinu allan daginn. Senan þegar við löbbum eftir ganginum var tekin upp sjö eða átta sinnum. Ég var frekar stressaður en þetta fór vel; senan var að minnsta kosti ekki klippt út.“

Hvernig var að horfa á sjálfan sig á skjánum?

„Það var ekki mjög kvalafullt. Það tók fljótt af. Þetta var virkilega skemmtileg reynsla.“

Ítarlegt viðtal er við Bazard í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka