„Við erum alveg vön að fá skjálfta á þessu svæði og þetta virðist vera að detta niður.“
Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en jarðskjálfti að stærðinni 3,3 mældist við Trölladyngju á Reykjanesi á öðrum tímanum í dag og hafa honum fylgt nokkrir eftirskjálftar.
Spurð hvort þessir skjálftar tengist Sundhnúkagígaröðinni segir Sigríður að sá möguleiki sé fyrir hendi.
„Þetta er á þessu gikkskjálftasvæði sem oft koma gikkskjálftar,“ segir hún en engar tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist í byggð.
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og ef kvikusöfnun heldur áfram á svipuðum hraða munu 12 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi í lok janúar eða byrjun febrúar.
„Landrisið þar heldur áfram á svipuðum hraða og það fer kannski að draga til tíðinda í Sundhnúkagígaröðinni um mánaðamótin ef fram heldur sem horfir,“ segir Sigríður.