140 þurfa að yfirgefa heimili sín

Frá Neskaupstað. Mynd úr safni.
Frá Neskaupstað. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Jón Björn Hákonarson, verkefnastjóri almannavarna á Austurlandi, segir rýmingar vegna snjóflóðahættu í Neskaupstað og á Seyðisfirði taka gildi klukkan 18 en horft sé til þess rýmingu verði lokið fyrir klukkan 16 eða áður en færðin versnar.

Hann segir að rýmingar í Neskaupstað taki til 40 heimila og 140 íbúa sem skráðir eru til heimilis en önnur svæði sem þarf að rýma eru atvinnusvæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Jón Björn gerir ráð fyrir að rýmingin standi fram yfir á þriðjudag en þá á veðrið að gangi niður.

Bætir í úrkomu þegar líður á daginn

„Við höfum unnið í góðu og þéttu samstarfi með björgunarsveitum. Höfum farið til fólks og aðstoðað það og kynnt þetta fyrir þeim. Við horfum í það að fólk verði búið að koma sér í burtu af rýmingarsvæðunum um fjögur leytið ef færð fer að spillast,“ segir Jón Björn við mbl.is.

Hann segir að nú sé slydduhríð í Neskaupstað og ekki sé komið neitt illviðri en bæta á í úrkomuna þegar líður á daginn.

Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar í Egilsbúð í Neskaupstað og í Herðubreið á Seyðisfirði klukkan 13 og segir Jón Björn að þar sé verið að taka á móti fólki ef það þarf á því að halda að fá gistingu.

„Eflaust munu margir fara til ættingja og kunningja,“ segir Jón Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert