Amma púlaði en afi var stikkfrí

Gunnar Randversson.
Gunnar Randversson. mbl.is/Karítas

„Þetta er ekki byggt á eigin reynslu. Bara hreinn skáldskapur,“ segir Gunnar Randversson, ljóðskáld og tónlistarmaður, sem sent hefur frá sér bók með ljóðum og örsögum, Þegar ég var lítill var ég alltaf hræddur.

Amma og afi eru í öndvegi í fyrsta hluta bókarinnar og þar mæðir talsvert meira á henni en honum, svo sem skýrt kemur fram í ljóðinu Stikkfrí:

Afi spásserar glaðbeittur um þorpið og ræðir

heimsmálin og nýjustu fréttir við alla sem

hann hittir. Á meðan er amma heima að

skúra gólf, vaska upp, ryksuga, dusta

rykið af húsgögnunum í stofunni,

hengja upp þvott og þrífa klósettið

Þennan veruleika kannast ábyggilega margir við, þótt eitthvað hafi þetta nú líklega breyst á seinni árum. „Hér lýsi ég hinum dæmigerðu hlutverkum afa og ömmu; það mæddi meira á henni. Íslensku ömmunni féll aldrei verk úr hendi meðan afinn hafði það oft náðugt á heimilinu. Ég fjalla um þetta á gamansaman hátt.“

Hér er ekki byggt á ömmum Gunnars og öfum, föðurafi hans og -amma voru látin áður en hann fæddist 1959 og hin féllu frá þegar hann var um tíu ára. „Þau bjuggu á Sauðárkróki en ég á Ólafsfirði, þannig að ég hitti þau ekki oft og man lítið eftir þeim. Ég er samt með myndina af þeim í huganum og kannski var það smá kveikja en þetta eru samt ekki þau,“ segir Gunnar en ein af fyrri ljóðabókum hans, Hvítasta skyrtan mín, vísar einnig í afa hans sem ávallt klæddist hvítri popplínskyrtu með axlaböndum.

Ljúfar stundir með pabba

Í öðrum hluta bókarinnar drepur Gunnar víða niður fæti; fjallar um alls kyns hversdagslegar raunir, langanir og þrár, ást og hatur. Svo er þarna piltur sem setur markið hátt og vill verða nýr Lionel Messi. „Það átti upphaflega að verða smásaga en passaði vel inn í þessa bók sem örsaga. Þetta er nöturleg lýsing sem endar vel,“ segir Gunnar.

Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar er að finna tvö ljóð um trú. Annað heitir einfaldlega Trú og er svona:

Þessi vissa –

þessi fullvissa

um að Guð sé

til

 – Ertu trúaður?

„Já, ég er það. Pabbi bað með mér bænir á kvöldin þegar ég var lítill. Það voru ljúfar stundir sem við fengum saman meðan pabba naut við en hann dó þegar ég var 11 ára. Hann var astmaveikur og fékk hjartaáfall og lést, aðeins 59 ára gamall. Pabbi var kaupmaður og rak verslun á Ólafsfirði og ég ólst að hluta til upp þar. Síðan gerðist ég róttækur á unglingsárum, varð herstöðvaandstæðingur, hallaði mér til vinstri og afneitaði þá trúnni um tíma. Þegar ég eignaðist svo börnin mín kom trúin aftur inn í mitt líf og ég vildi láta skíra þau. Allar götur síðan hef ég lagt rækt við trúna.“

Nánar er rætt við Gunnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert