Veðurstofan varar við aukinni snjóflóðahættu á Austfjörðum en mikilli snjókomu er spáð á svæðinu bæði í dag og á morgun. Norðaustan hríðaveður gengur yfir landið í dag og hafa verið gefnar út gular viðvaranir víðs vegar um landið í dag.
Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að fljótlega byrji að snjóa á Austfjörðum og seinni partinn verður þar talsvert mikil snjókoma. Hann segir að það verði ekki fyrr en aðfaranótt þriðjudags sem styttir upp á Austfjörðum.
Spár gera ráð fyrir um 300 millimetra uppsöfnun fram á aðfaranótt þriðjudags en í gær höfðu þegar safnast um 50 millimetrar til fjalla eftir austan og norðaustan hríð. Ofanflóðavakt Veðurstofunnar mun fylgjast vel með stöðunni.
Að sögn veðurfræðings verður hvassviðri eða stormur víða um landið í dag. Það mun snjóa á Austfjörðum og síðar einnig norðaustanlands en það verður slydda eða rigning suðaustantil. Á vestanverður landinu verður úrkomulítið, en snjókoma, slydda eða rigning með köflum síðdegis.