Andrés Ingi Jónsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Dýraverndarsambands Íslands.
í tilkynningu frá Dýraverndarsambandi Íslands segir að Andrés hafi þegar hafið störf. Þar segir að Andrés Ingi búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu á vettvangi stjórnmála en hann var þingmaður Pírata frá árinu 2021, þingmaður Vinstri grænna á árunum 2016-2019 og sat þess á milli sem þingmaður utan þingflokka. Andrés Ingi er með meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá háskólanum í Sussex.
Enn fremur segir að sem þingmaður hafi Andrés beitt sér sér ötullega fyrir málefnum mannréttinda, umhverfisverndar og dýravelferðar sem stjórn Dýraverndarsambands Íslands horfði sérstaklega til við ráðningu hans sem framkvæmdastjóra sambandsins.
„Við bjóðum Andrés Inga hjartanlega velkominn og hlökkum til samstarfsins. Starf Dýraverndarsambandsins hefur verið að vaxa á undanförnum árum, vitund almennings er sífellt að aukast og verkefnum að fjölga, þannig að við sjáum mikil tækifæri í því að styrkja félagið á næstu misserum,“ segir Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands.