Ástin dró mig vestur

Ég vil hafa áhrif á samfélagið, segir Sigríður Júlía um …
Ég vil hafa áhrif á samfélagið, segir Sigríður Júlía um störf sín. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Besta leiðin til að kynnast hverju samfélagi, sem nýr íbúi þar, tel ég að sé að gerast strax virkur þátttakandi,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, nýr bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.

„Að vera í tónlist, íþróttum eða einhverju slíku opnar fólki möguleika og tækifæri. Ég flutti hingað vestur árið 2019 og blandaði mér fljótt í leikinn á ýmsum sviðum. Hét því reyndar strax að ég ætlaði aldrei í stjórnmál, en svo fór fljótt að ég sogaðist inn í þau, enda vildi ég hafa áhrif. Var árið 2022 kjörin í bæjarstjórn en sá þó aldrei fyrir mér að verða bæjarstjóri. En svona kemur lífið manni stundum á óvart.“

Norðurland og Borgarfjörður

Nú um áramótin tók Sigríður við bæjarstjórastarfinu í kjölfar þess að Arna Lára Jónsdóttir, sem því hafði gegnt frá 2022, var kjörin á Alþingi. Þær koma báðar úr Í-listanum sem hefur meirihluta í Ísafjarðarbæ og fimm bæjarfulltrúa. Í sveitarstjórnarkosningum 2022 skipaði Sigríður fjórða sæti listans og næstliðin ár hefur hún verið formaður skipulags- og mannvirkjanefndar sveitarfélagsins. Íbúar í Ísafjarðarbæ eru nú um 4.000 og fjórðungur þeirra af erlendum uppruna.

„Ræturnar eru á Norðurlandi,“ segir Sigríður Júlía, sem fæddist á Akureyri en ólst upp í Fnjóskadal og Skagafirði. Hún bjó svo í um tuttugu ár í Borgarfirði, hvar hún bjó, nam og starfaði meðal annars á Hvanneyri. Var þar framkvæmdastjóri bændaskóga á Vesturlandi og síðar sviðsstjóri hjá Skógræktinni.

Ljósum prýddur kaupstaðurinn við Skutulsfjörð; Ísafjörður.
Ljósum prýddur kaupstaðurinn við Skutulsfjörð; Ísafjörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýjar atvinnugreinar

„Í Borgarbyggð var ég í sveitarstjórn um skeið, en svo dró ástin mig hingað vestur og hingað flutti ég árið 2019. Við Steinþór Bjarni Kristjánsson eiginmaður minn bjuggum lengi í Önundarfirði, en fluttum okkur svo á Suðureyri eftir að hafa keypt okkur inn í ferðaþjónustuna Fisherman. Á þeim tíma var ég farin að vinna hjá Lýðskólanum á Flateyri; var fyrst kennslustjóri og síðar skólastjóri en af því starfi lét ég þegar mál skipuðust svo að ég tæki við starfi bæjarstjóra,“ segir viðmælandi og heldur áfram:

„Skógrækt, lýðskóli, ferðaþjónusta; já, þetta er kannski ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar minnst er á Vestfirði. En þarna ber á að líta að á sl. 10-15 árum hafa orðið breytingar á öllum atvinnuháttum hér. Sjávarútvegurinn, það að beita línu, sækja sjó og vinna fisk, er ekki lengur í sama aðalhlutverki og var þótt mikilvægt sé. Fleiri atvinnugreinar hafa komið inn og eru mikilvægar; svo sem fiskeldið. Þá munar mjög um komu nærri 200 skemmtiferðaskipa á sumri hverju til Ísafjarðar. Sett hafa verið viðmið um mengun og fjölda farþega í landi á hverjum tíma svo nú hefur náðst ágæt sátt um þessi mál. Og dagarnir hér í bænum þegar skipin eru í höfn og bærinn fullur af fólki eru skemmtilegir. Iðandi mannlíf og sól á Silfurtorgi.“

Nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert