Hringvegurinn er lokaður á milli Stöðvarfjarðar og Breiðadalsvíkur og hins vegar á milli Hafnar og Djúpavogs en fallið hafa snjóflóð yfir veginn í Kambanesskriðum og í Hvalnesskriðum.
Þetta kemur fram á veg Vegagerðarinnar, umferðin.is. Ófært er á Vatnsskarði eystra, Öxi og Breiðdalsheiði sem og milli Breiðdalsvíkur og Þvottár. Vegurinn til Norðfjarðar er lokaður vegna veðurs og sömu sögu er að segja um veginn yfir Fjarðarheiði.
Á Vestfjörðum er vegurinn um Dynjandisheiði ófær vegna snjóa og á Norðurlandi er Siglufjarðarvegur ófær og Öxnadalsheiði er lokuð. Þá er vegurinn um Víkurskarð lokaður vegna veðurs.
Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og þá er ófært á Hófaskarði og Hólaheiði.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular og gular viðvaranir víða um landið og eru vegfarendur beðnir um að kynna sér aðstæður áður en þeir leggja af stað.