„Hér eru allir bara frekar slakir. Þangað til nýju varnargarðarnir verða kláraðir þá getum við átt von á þessu svona rýmingu allavega einu sinni á ári,“ segir Guðröður Hákonarson, hóteleigandi á Hildibrand hótel í Neskaupstað, kokkur og fyrrum bóndi.
Rýma þurfti hluta bæjarins vegna snjóflóðahættu og hefur Guðröður veitt á þriðja tug manna húsaskjól sem þurftu að yfirgefa heimili sín.
Guðröður var að ryðja snjó frá hótelinu þegar mbl.is náði spjalli af honum.
„Ég er með átta fjölskyldur sem eru í íbúðum hjá mér og þau eru í fæði líka,“ segir Guðröður.
Guðröður hefur reglulega komið húsaskóli yfir fólk sem er á vergangi í bænum vegna rýminga. Þannig var Guðröður með um 200 manns í mat á degi hverjum þegar stór hluti bæjarins var rýmdur eftir snjóflóð árið 2023. Lenti það á húsum í Mýrarhverfi og urðu miklar skemmdir á bílum og húsnæði en enginn slasaðist þó alvarlega. Núverandi rýming nær eingöngu til þess svæðis nú.
„Það er töluvert mikill jafnfallinn snjór en þetta eru engin ósköp. Það féllu kannski 40-50 sentimetrar í nótt,“ segir Guðröður.
Varnargarðarnir við Neskaupstað eiga að rísa á þremur árum en vinna að þeim hófst í sumar. Að sögn Guðröðar virðist vinna við garðana ganga vel og þeir séu að taka á sig mynd.