Tólf atvinnusviðslistahópar hafa fengið 98 milljón króna styrk frá sviðslistaráði í ár. Þeir fá 102 mánuði greidda úr launasjóði sviðslistafólks. 98 mánuðum var úthlutað til einstaklinga í úthlutun listamannalauna.
Alls nemur stuðningur til sviðslistahópa og sviðslistafólks á árinu rúmlega 155 milljónum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
Hæstu úthlutunina fengu brúðuleikhúsið Handbendi, menningarfélagið Tvíeind og áhugafélagið Díó.
Handbendi hlaut styrk upp á 24 milljónir, Menningarfélagið Tvíeind fékk styrk upp á 22 milljónir króna og Áhugafélagið Díó fékk styrk upp á 18,5 milljónir.
„Í stefnu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auka aðgengi landsmanna að menningarlífi óháð efnahag og búsetu og verður það algjört forgangsmál hjá mér að ráðast í aðgerðir sem auka aðgengi,“ sagði Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, þegar hann ávarpaði styrkþega við úthlutunina.