Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, segist hafa verið meðvituð um að Flokkur fólksins uppfyllti ekki lagaskilyrði vegna opinberra styrkja stjórnmálaflokka.
Flokkurinn ætli sér þó ekki að skila þeim 240 milljónum sem flokkurinn hefur fengið frá hinu opinbera í trássi við lög.
Inga ræddi við blaðamann Morgunblaðsins að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Í Morgunblaðinu í dag var sagt frá því að Flokkur fólksins er ekki skráður á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins, sem er lögbundið skilyrði fyrir því að hljóta opinbert framlag.
Skilyrði um skráningu var lögfest árið 2021, en ástæðu þess að flokkurinn er ekki skráður rekur Inga til þess að þá breytingu þurfi að gera á landsfundi. Flokkurinn hefur ekki haldið landsfund frá árinu 2019, þrátt fyrir að samþykktir flokksins kveði á um að landsfundur sé haldinn á þriggja ára fresti.
Hún segir um „mjög lítinn“ formgalla að ræða, en skilyrðin voru sett með það að marki að auka gagnsæi og treysta eftirlit og aðhald með ráðstöfun opinbers fjár. Þannig fylgir skráningunni ríkari upplýsingaskylda stjórnmálaflokka en á móti öðlast þeir rétt til framlaga frá hinu opinbera.
Þurfið þið að skila peningnum?
„Nei, það munum við ekki gera,“ svarar Inga.
Nú þurfa öryrkjar og aldraðir sem fá ofgreitt frá hinu opinbera að greiða til baka, gildir ekki það sama um stjórnmálaflokka?
„Ég held að þú ættir að svara þessari spurningu sjálf,“ segir Inga þá kankvís og gengur í burtu.
Inga vildi ekki svara frekari spurningum blaðamanns þegar eftir því var innt.