Auknar líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi á næstunni

Það er viðbúið að það verði kvikuhlaup eða jafnvel eldgos …
Það er viðbúið að það verði kvikuhlaup eða jafnvel eldgos í lok janúar eða í byrjun febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landris heldur áfram á Sundhnúkagígaröðinni en hraðinn hefur minnkað örlítið. Samkvæmt líkanreikningum má því gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni fari að aukast í lok janúar eða byrjun febrúar að sögn Veðurstofu Íslands. 

Fram kemur í nýju yfirliti Veðurstofu Íslands, að GPS-mælingar sýni að hraði landriss hafi minnkað örlítið á síðustu vikum en varasamt geti verið að túlka einstaka GPS-punkta.

Truflun á þessum árstíma valdi því að breytileiki milli daga sé meiri vegna veðuraðstæðna. Í staðinn þurfi að horfa á mælingar yfir lengri tíma, en þær sýna áframhaldandi landris.

„Atburðarásin er því enn í fullum gangi og er að þróast mjög svipað og fyrir síðustu gos. Samkvæmt líkanreikningum mun rúmmál kviku undir Svartsengi ná neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar. Þetta þýðir að það má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni fari að aukast frá þeim tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert