Bjóða börnum og ungmennum frítt í sund

Sundlaugin á Seltjarnarnesi.
Sundlaugin á Seltjarnarnesi. Ljósmynd/Seltjarnarnes

Vel hefur verið tekið í þá nýbreytni í Sundlaug Seltjarnarness að bjóða börnum og ungmennum að 18 ára aldri ókeypis aðgang í laugina. Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti einróma á síðasta ári að fella niður gjaldtöku fyrir þennan hóp og tók það fyrirkomulag gildi um áramótin. 

„Þetta gefur krökkunum færi á að fara í sund hvenær sem þeim hentar án þess að hafa áhyggjur að vera með peninga eða kort í vasanum,“ segir Haukur Geirmundsson, forstöðumaður sundlaugarinnar í umfjöllun á vef bæjarfélagsins

Víðar er boðið upp á svipaða eða sambærilega þjónustu. Í sundlaugum í Reykjavík er frítt fyrir börn og ungmenni að 15 ára aldri og í Kópavogi er frítt fyrir börn að 18 ára aldri svo dæmi séu tekin. 

„Þessi breyting verður vonandi til þess að yngri kynslóðin sæki sundlaugina oftar. Og það er ekki úr vegi að hvetja alla Seltirninga til þess að koma í sund. Sundlaugin er þvílík heilsuparadís þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það að synda er mikil heilsubót, heilsurækt sem reynir á flesta vöðva líkamans og styrkir um leið liðbönd og eykur þol. Sundlaugin býður uppá fría sundleikfimi 4 sinnum í viku þ.e. mánudaga og miðvikudaga kl. 18:30-19:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 7:10-7:40,“ er haft eftir Hauki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert