Eldur kom upp í ruslagámi fyrir pappa í Skeifunni í kvöld. Tvær starfsstöðvar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu komu að málinu en færa þurfti ruslagáminn upp á Esjumela til að ljúka við slökkvistarf.
Þetta segir Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is
„Þeir fóru og reyndu að slökkva í honum [ruslagámnum] en það endaði með að farið var með hann á athafnasvæði fyrirtækisins og þar var hann opnaður og slökkt í gámnum,“ segir Lárus.
Aðspurður segir Lárus að engar skemmdir hafi orðið í kjölfar eldsins fyrir utan á gámnum sjálfum. Þá segir hann upptök eldsins ekki liggja fyrir.