„Hlutirnir eru að falla í sinn hefðbundna farveg,“ segir Jón Björn Hákonarson, verkefnastjóri almannavarna á Austurlandi. Íbúar sem þurftu að rýma heimili sín í Neskaupstað og á Seyðisfirði eru nú komnir heim á ný. Hann segir mikilvægt að uppbygging varnarmannvirkja á svæðunum haldi áfram.
Jón Björn segir að heilt yfir hafi allt gengið vel. Hann sé þakklátur íbúum sem tókust á við rýmingarnar af miklu æðruleysi en einnig vandar hann fyrirtækjaeigendum og björgunarsveitum kveðjurnar.
Hann nefnir þó að það sé heilmikið inngrip í líf fólks þegar boðað er til rýminga þó að í öryggiskyni sé. Því hafi íbúar verið hvattir, finni þeir fyrir óöryggi, til að nýta sér hjálparsíma Rauða krossins og þjónustuaðstoð frá sveitarfélögunum.
„En auðvitað er maður bara glaður og ánægður að allt fór vel og að ekki reyndi á neitt í þessu. Það er náttúrulega fyrir öllu.“
Aðspurður segir hann að haldið verði áfram eftirliti á svæðinu. Búið sé að færa svæðið af hættustigi niður á óvissustig en nefnir hann að miðað við veðurspá ætti ekki að draga til tíðinda á næstunni.
„En auðvitað er vel með fylgst.“
Jón Björn nefnir að rýmingarnar hafi að stórum hluta verið á svæðum þar sem unnið er að uppbyggingu varnarmannvirkja. Stefnt er á að uppbyggingu verði lokið á Seyðisfirði árið 2026 og í Neskaupstað árið 2029 og segir verkefnastjórinn að það muni hafa áhrif.
„Það er auðvitað bara mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að útgreiðsla úr ofanflóðasjóði ár hvert sé næg til þess að keyra þau verkefni áfram á fullum afköstum sem og önnur varnarmannvirki á Íslandi.“
Sjálfur býr Jón Björn í Neskaupstað og segir hann íbúa sem þurftu að rýma heimili sín nú vera komna aftur heim.
„Ég sá að fólk var komið inn á svæði 18 sem við rýmdum og það var sömuleiðis á Seyðisfirði. Ég heyrði í þeim áðan og þegar sú aflétting var komin þá bara dreif fólk sig heim á ný.“