Ákvörðun um að loka tveimur flugbrautum á Reykjavíkurflugvelli í myrkri vegna áhrifa trjágróðurs í Öskjuhlíð á aðflugs- og brottflugsfleti brautanna tveggja veldur þeim sem sjá um sjúkraflug þungum áhyggjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi, en á bak við miðstöðina eru slökkviliðið á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri og flugfélagið Norlandair.
Í tilkynningunni kemur fram að miðstöðin lýsi þungum áhyggjum vegna þessara takmarkana, „enda er óheft aðgengi sjúkraflugvéla að Reykjavíkurflugvelli í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins.“
Vísað er til þess að á hverju ári séu 950-1.000 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi í flugvélum, þar af um 630-650 til Reykjavíkur. Í um 45% tilfella sé um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfa að komast í bráðaþjónustu á Landspítalanum, þar með talið sjúklingar sem þurfa að komast í tímaháð inngrip, s.s. vegna bráðra kransæðaþrenginga, heilablóðfalla og háorkuáverka.
Tekið er fram að í slíkum tilfellum sé ástand sjúklinga með þeim hætti að lengdur flutningstími, sem myndi hljótast af því ef flytja þyrfti sjúkling frá Keflavíkurflugvelli, gæti dregið verulega úr lífslíkum eða batahorfum.
Miðstöðin bendir á að samkvæmt gögnum um sjúkraflug árið 2025 hafi 15% sjúkrafluga um Reykjavíkurflugvöll átt sér stað í myrkri og þar af hafi umtalsverður hluti um farið um þær flugbrautir sem hafi nú verið lokað. „Það er því ljóst að lokanir umræddra flugbrauta munu hafa áhrif á batahorfur og lífslíkur tuga sjúklinga ár hvert og er á skjön við lög um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt er vísað til þess að í þeim tilfellum sem ekki teljist vera bráðatilvik hafi umræddar takmarkanir verulega hamlandi áhrif á aðgengi sjúklinga af landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu og fráflæði sjúklinga frá Landspítala.