Ráðast í átak eftir hópsmitið á Mánagarði

Alvarleg hópsýking kom upp á Mánagarði við Eggertsgötu í haust.
Alvarleg hópsýking kom upp á Mánagarði við Eggertsgötu í haust. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa sett af stað tímabundið átaksverkefni til að auka vitund í samfélaginu og áherslur í eftirliti varðandi E.coli í kjöti. Er það gert vegna alvarlegrar hópsýkingar sem kom upp á leikskólanum Mánagarði í október á síðasta ári.

Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að verkefnið muni ná yfir tvö ár og að niðurstöður þess verði birtar í skýrslu á vef MAST.

Nauðsynlegt að skerpa á þekkingu

Segir þar enn fremur að í ferli málsins hafi komið í ljós að nauðsynlegt væri að skerða á þekkingu og meðvitund almennings og matvælaframleiðanda um mikilvægi réttrar meðhöndlunar á kjöti m.t.t. E.coli.

Alls greindust 49 manns með shaga-toxin-myndandi E.coli, þar af voru 45 börn á leikskólanum Mánagarði. Tólf börn voru lögð inn á legudeild Barnaspítala Hringsins, fimm börn inn á gjörgæslu og tvö þeirra þurftu skilunarmeðferð vegna nýrnabilunar.

Allir í keðjunni bera ábyrgð

Í tilkynningu MAST segir: „Við framleiðslu og framreiðslu kjöts bera allir í keðjunni, allt frá bónda til neytanda, ábyrgð á að tryggja matvælaöryggi, þ.m.t. að lágmarka E. coli-mengun. Hreinir gripir þurfa að koma frá bónda, matvælaöryggiskerfi sláturhúsa og annarra matvælafyrirtækja þurfa að vera skilvirk og meðferð matvæla við matreiðslu þarf að vera rétt. Til að tryggja að svo sé þarf að vera til staðar fullnægjandi þekking og viðeigandi verkferlar.“

Átaksverkefni MAST og HES beinist að því að auka þekkingu og stuðla að bættum verkferlum fyrirtækjanna. Meginmarkmiðið með þessu er að minnka líkur á að sjúkdómsvaldandi E. coli (t.d. STEC (shigatoxín-myndandi E. coli)) berist með kjöti í fólk, einkum börn og aðra viðkvæma hópa. Verkefnið kallar einnig á gerð og endurskoðun tiltekinna leiðbeininga. Vinna við framkvæmd átaksverkefnisins er hafin.

Samráðsfundir og skoðað að auka kröfur

Það sem meðal annars felst í vitundarátakinu eru samráðsfundir með bændum vegna hreinleika gripa og markviss birting á fræðslu um meðferð kjöts og ábyrgð matvælafyrirtækja á fræðslu og þjálfun starfsmanna sinna.

Þá verður möguleikinn á auknum kröfum um merkingar varðandi eldun á kjöti skoðaður og möguleikar á skýrari kröfum til menntunar þeirra sem starfa við framleiðslu og dreifingu.

Hvað eftirlit MAST og HES varðar verður áhersla lögð á verklag sláturhúsa við óhreinum gipum, rýni á niðurstöðum E. coli-greininga samkvæmt regluverki í sláturhúsum og kjötvinnslum. Þá verða verkferlar fyrirtækja skoðaðir, meðferð kjöts og þjálfun og fræðsla starfsmanna í stóreldhúsum, einkum þeirra sem meðhöndla matvæli fyrir viðkvæma neytendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert