Borgarstjórn samþykkti einróma í dag endurskoðaða aðgerðaáætlun í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá borginni.
Áætlunin gildir til ársins 2027 og verða skaðaminnkandi, valdeflandi og batamiðuð nálgun sem og hugmyndafræðin um húsnæði fyrst áfram að leiðarljósi í þjónustu við hópinn.
Aukin áhersla verður lögð á þjónustu við konur og fólk af erlendum uppruna og áfram verður unnið að því að þrepaskipta þjónustunni. Þá tekur eitt úrræði við af öðru eftir þörfum hvers og eins.
Með þessu er unnið að því að draga úr þörf á neyðarrýmum samhliða því að fjölgun verði á tímabundnu húsnæði og varanlegum húsnæðisúrræðum, að því er segir í tilkynningunni.
„Við þurfum öll að eiga heimili, svo við þurfum öll að leggjast á eitt og útrýma heimilisleysi. Það er flókið verkefni sem getur ekki eingöngu verið á höndum Reykjavíkurborgar,“ er haft eftir formanni velferðarráðs.
Þá kemur fram, að úrræðum hafi fjölgað mikið síðan stefna í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt af Reykjavíkurborg árið 2019.
Er sú stefna sú eina sem til er á landinu en ríkið og önnur sveitarfélög hafa enn ekki sett sér stefnu í málaflokknum að því er segir í tilkynningunni.
Til var 101 rými í úrræðum velferðarsviðs fyrir hópinn árið sem stefnan var samþykkt en í dag eru þau 187. Þar hefur bæði verið bætt við tímabundnu neyðarhúsnæði og varanlegum húsnæðisúrræðum, þá hefur fjöldi fólks sem þarf að nýta gistiskýli einnig fækkað.
Árið 2022 var nýtt áfangaheimili fyrir konur tekið í notkun og tímabundið neyðarhúsnæði fyrir karlmenn var síðan tekið í notkun í lok árs 2023. Þá hefur markviss leit staðið yfir að nýju húsnæði fyrir Konukot að sögn borgarinnar.
Í byrjun árs 2023 var ákvörðun tekin um að hækka gistináttagjald annarra sveitarfélaga fyrir gistingu í neyðarskýlum. Þá gerðu Heimahjúkrun Reykjavíkurborgar og Sjúkratryggingar Íslands einnig samning um heilbrigðisþjónustu á vettvangi fyrir heimilislaust fólk.
Í lok árs 2023 hafði verið úthlutað í öll 20 smáhúsin sem komið hefur verið fyrir um borgina og í fyrravetur var gengið til samstarfs við Samhjálp um vetraropnun á Kaffistofu Samhjálpar, þangað geta gestir neyðarskýla leitað á meðan skýlin eru lokuð. Þá er einnig tekið fram að hjálparsamtök bjóða uppá fleiri möguleika. Hjálparstarf kirkjunnar rekur til að mynda Skjólið sem er dagdvöl fyrir konur og Hjálpræðisherinn er öllum opinn.
Samkvæmt fréttatilkynningunni hefur stýrihópur um endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar unnið að breyttum aðgerðum, forgangsröðun þeirra og kostnaðarmati síðan 2021.
Aðgerðirnar fela eftirfarandi í sér:
Fram kemur einnig í fréttatilkynningunni að Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segist afar ánægð með þann árangur sem náðst hefur í málaflokknum í hennar formannstíð.
Hún segir Reykjavíkurborg hafa algera forystu í stefnumótun í málaflokknum og borgin hafi að mestu leyti staðið fyrir uppbyggingu á þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Tími sé til kominn að ríkið og önnur sveitarfélög komi að henni að meira leyti.
„Reykjavíkurborg hefur borið hitann og þungann af þeirri þjónustu sem veitt er heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir,“ segir Heiða.
„Það er mikilvægt að ríkið móti stefnu í málaflokknum og auki fjármagn til hans. Einnig að önnur sveitarfélög setji sér áætlanir um viðbrögð því að heimilislaust fólk með lögheimili utan Reykjavíkur sæki þjónustu til höfuðborgarinnar. Einstaklingar sem búa við heimilisleysi eru mun líklegri en aðrir til að glíma við geðrænar áskoranir, líkamleg veikindi, vímuefnavanda og þunga áfallasögu og þess vegna er þörf á aukinni samvinnu milli kerfa til að hægt sé að veita þessum hópi viðeigandi þjónustu. Við þurfum öll að eiga heimili, svo við þurfum öll að leggjast á eitt og útrýma heimilisleysi. Það er flókið verkefni sem getur ekki eingöngu verið á höndum Reykjavíkurborgar.“