Þrjú meðalstór flóð féllu í Neskaupstað í gærkvöldi en ógnuðu þó ekki byggð. Gott veður er nú í Neskaupstað og er búist við að rýmingu á Austurlandi verði aflétt fljótlega eftir hádegi.
Þetta upplýsir Ólíver Hilmarsson, ofanflóðasérfræðingur á snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands.
Hann segir veðrið vera að ganga niður en nefnir jafnframt að meðalstór flóð hafi fallið úr Nes-, Ská- og Bakkagili í Neskaupstað í gærkvöldi en það hafi svo komið í ljós í morgun þegar það birti til. Flóðin hafi farið vel út úr giljunum en ógnuðu þó ekki byggð.
Þá hefur Veðurstofan ekki frétt af neinum flóðum á Seyðisfirði en segir Ólíver að enn sé svolítið ofankoma þar. Hins vegar sé fínasta veður í Neskaupstað.
„Þannig það er svona verið að bíða eftir því að þetta gangi alveg niður.“
Uppfært kl. 12:13
„Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að aflýsa hættustigi á rýmingarsvæðum í Neskaupstað frá klukkan 12:00 í dag. Öllum rýmingum í Neskaupstað hefur því verið aflétt. Íbúum á rýmingarsvæðum er óhætt að snúa heim og starfsemi hjá fyrirtækjum á rýmdum svæðum má hefjast að nýju.
Verið er skoða stöðuna á Seyðisfirði. Gera má ráð fyrir að rýmingum þar verði aflétt síðar í dag,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.