Vonast til að menn sjái alvöru málsins

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir það ekki gott fyrir neinn ef slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn fara í verkfallsaðgerðir. Hann vonast til að menn sjái alvarleika málsins og klári samninga sem fyrst.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn munu hefja verkfall 10. febrúar ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. Félagsmenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna (LSS) samþykktu verkfallsboðun í gær.

Deilan búin að standa yfir lengi

„Við vonum svo innilega að þetta fari nú að leysast eða að það verði fundin lausn á þessari deilu því að hún náttúrlega er búin að standa núna ansi lengi,“ segir Jón Viðar í samtali við mbl.is.

Sambandið skrifaði undir samning við Samband íslenskra sveitarfélaga árið 2023 með framlengingu til 1. apríl 2024 og frá 2023 hafa viðræður staðið yfir.

Ekki gott fyrir neinn

Samningsaðili LSS er Samband íslenskra sveitarfélaga og sagði Bjarni Ingimarsson formaður LSS í samtali við Morgunblaðið í gær að samningaviðræður hefðu gengið mjög hægt. Jón Viðar segist hins vegar hafa heyrt á Bjarna í sjónvarpsviðtali að hann sé vongóður um að samningar muni nást fyrir verkfall.

„Þannig að ég vona það svo innilega því að ef slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn fara í aðgerðir þá er það ekki gott fyrir neinn.“

Yfirvinnubann á meðal aðgerða

Spurður um hvers konar aðgerðir farið yrði í ef til verkfalls kæmi nefnir Jón Viðar að t.a.m. yrði sett á yfirvinnubann. Einnig yrði ekki hægt að fá starfsmenn á svokallaðar frívaktir ef upp kæmi stór bruni eða þvíumlíkt sem Jón segir gerast oft.

Þá yrðu miklar tafir og hægagangur á verkefnum sem falla undir forgang þrjú og fjögur en það eru t.d. flutningur sjúklinga á milli sjúkrastofnana og hreinsun eftir umferðarslys.

Hann tekur þó fram að öllum neyðartilvikum yrði sinnt.

„En þetta er alltaf erfitt og dálítil áhætta ef eitthvað skyldi koma upp á.“

Vonar að menn sjái alvöru málsins 

Skilst Jóni Viðari að samningafundur verði haldinn í þessari viku og telur hann það lofa góðu.

Ertu bjartsýnn?

„Ég vona allavega að menn sjái alvöru málsins og fari og klári samninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert