Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að rannsókn héraðssaksóknara á Örnu McClure, fyrrverandi yfirlögfræðingi Samherja, verði ekki felld niður.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í málinu 19. desember 2024, en Arna skaut málinu til Landsréttar með kæru þann 20. desember.
Úrskurðurinn var staðfestur þriðjudaginn 7. janúar en birtist í dag.
Í úrskurðinum segir að Arnar hafi reist kröfu sína einkum á tveimur málsástæðum, annars vegar þeirri að saksóknari við embætti héraðssaksóknara hefði verið vanhæfur til að annast rannsókn málsins og hins vegar að óhæfilegur dráttur hefði orðið á meðferð þess við embættið.
Landsréttur féllst á með héraðsdómi að gögn sem Arna lagði fram til stuðnings fyrri málsástæðu sinni breyttu engu í niðurstöðu Landsréttar um að ekki væri ástæða til að draga í efa óhlutdrægni starfsmanna héraðssaksóknara við rannsóknina.
Hvað varðar síðari málsástæðu Örnu þá vísaði Landsréttur til þess að rannsókn málsins hefði staðið yfir í um fimm ár og að af fyrirliggjandi gögnum yrði ráðið að málið væri umfangsmikið.
Einnig þótti ekki séð að á rannsókn málsins hefðu orðið verulegar eða óeðlilegar tafir svo að það færi í bága við fyrirmæli laga um meðferð sakamála og úrskurðurinn því staðfestur.
Arna hefur nú haft réttarstöðu sakbornings í tæp fimm ár í rannsókn héraðssaksóknara vegna meintra brota Samherja í Namibíu.
Hún hefur áður haft uppi kröfu um niðurfellingu rannsóknar málsins á sama grunni sem var hafnað með úrskurði Landsréttar.