Verkfræðistofan Efla hefur óskað eftir upplýsingum hjá dagforeldrum um það hvað þurfi til svo starfsfólk fyrirtækisins fái forgang umfram önnur börn í dagvistun. Óskað er eftir því að dagforeldrar setji sig í samband við fyrirtækið svo hægt sé að meta möguleika á forgangi.
Þetta má sjá í færslu sem Yrsa Guðrún Þorvaldsdóttir, ráðgjafi í mannauðsteymi fyrirtækisins, setur inn á síðu dagforeldra á Facebook. Segir hún þar að fyrirtækið leitist eftir því að gera samning við nokkra dagforeldra sem starfa í nágrenni skrifstofu fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu en skrifstofur Eflu eru á Lynghálsi.
Spyr hún á Facebooksíðu dagforeldra: „Hvað þyrfti til að þið mynduð skuldbinda ykkur til þess að veita slíkan forgang?“
Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg segir í samtali við mbl.is að það sé ekkert í reglum borgarinnar sem banni dagforeldrum að velja þau börn sem þau vilja í dagvistun hjá sér. Eftir sem áður miðast greiðsla til dagforeldra eftir lögheimili.
„Dagforeldrar sem myndu gera samning við einkafyrirtæki þurfa að standast kröfur gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og heilbrigðiseftirlitsins. Að öðru leyti er þeim frjálst að velja hvaða börn þau hafa í dagvistun og gætu valið börn einhvers fyrirtækis umfram öðrum kjósi þeir svo.“